- Advertisement -

Skjaldborgin um fjármálaráðherra

Björn Leví Gunnarsson skrifaði:

Enginn ráðherra á nokkurn tíma að komast upp með það að ráða fjölskyldumeðlim í vinnu, hvort sem það er viljandi eða óvart. Enginn ráðherra á heldur að komast upp með það að selja fjölskyldumeðlim hlut í ríkisfyrirtæki, hvort sem það er viljandi eða óvart.

En óvart? spyr kannski einhver – það hlýtur nú að vera afsakanlegt, er það ekki? Nei, nefnilega ekki. Ráðherra á einmitt að passa upp á að ekkert slíkt gerist óvart, að ekkert slíkt geti gerst óvart. Ef hann gerir það ekki heitir það einfaldlega vanræksla. Í stjórnsýslulögum er talað um hina svokölluðu rannsóknarreglu sem snýr að því að „stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“ Eitt af því sem þarf að skoða er hvort ráðherra sé hæfur til þess að taka ákvörðun, til dæmis vegna hagsmunatengsla. Ef ráðherra veit ekki hvort hagsmunaárekstur gæti átt sér stað í ákvörðuninni er hún væntanlega ekki nægjanlega upplýst.

Nú er það þó skjalfest og óumdeild staðreynd að fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut í Íslandsbanka. Samkvæmt lögum bar ráðherra ábyrgð á því að samþykkja eða hafna þeim tilboðum sem bárust, og það gerði hann. Hvort sem ráðherra samþykkti öll tilboðin í einu eða ekki þá breytir það engu um hagsmunatengslin sem voru til staðar og ráðherra hefði átt að vera upplýstur um þegar hann tók ákvörðunina.

Þrátt fyrir að þetta liggi allt fyrir hafa stjórnarliðar sameinast um að slá upp skjaldborg utan um fjármálaráðherra. Þar er snúið út úr í gríð og erg og því haldið fram að útboðið hafi í raun ekki verið lokað, að ákvörðun ráðherra snúist bara um verð og magn. Svo er fullyrt að faðir fjármálaráðherra hafi nú mátt kaupa og að engin lög hafi verið brotin. Svo var það jú ráðherra sem hafði frumkvæði að því að gera skýrslu og birta kaupendalista. Að lokum er svo fullyrt að ráðherra hafi bara ekkert vitað að faðir hans væri að kaupa hlut í bankanum.

Þetta er til þess gert að reisa skjaldborg utan um fjármálaráðherra – en allt er þetta reist á sandi, veggurinn er sprunginn og í honum er mygla sem smitar allar aðrar stoðir samfélagsins. Það má ekki gerast að fjármálaráðherra komist upp með að selja föður sínum hlut í ríkiseign.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: