„Þetta stríð ríkisstjórnarinnar við hjúkrunarheimili landsins á sér sögu. Þráðurinn birtist að einhverju leyti í heilbrigðisstefnu stjórnvalda sem samþykkt var vorið 2019,“ segir í nýrri Moggagrein Hönnu Katrínar Friðriksson, þingflokksformanns Viðreisnar.
„Staðreyndin er sú að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur rekstrarfjármagn til hjúkrunarheimila verið markvisst skert og engin teikn eru á lofti um breytingar þar á,“ skrifar Hanna Katrín.
„Staðan var því orðin slæm, en lengi getur vont versnað. Hjúkrunarheimilin takast nú á við þriðju bylgju Covid-faraldursins, löskuð og sum jafnvel komin fjárhagslega að fótum fram. Stjórnendur og starfsfólk hafa unnið þrekvirki í erfiðum aðstæðum. Fyrir utan mikið álag hafa heimilin eðlilega staðið frammi fyrir auknum kostnaði vegna ýmissa nauðsynlegra ráðstafana. Þann viðbótarkostnað hafa stjórnvöld neitað að greiða. Þar á bæ kviknaði reyndar sú snilldarhugmynd að spara á aðstæðunum með því að halda eftir greiðslum til hjúkrunarheimilanna sem nemur þeim rúmum sem haldið var auðum vegna sóttvarnaráðstafana og til að geta brugðist við með hraði þyrfti að opna sérstakar Covid-einingar inni á heimilunum.“
„Þessi sveltistefna veldur því að hjúkrunarheimilin neyðast til að draga úr þjónustu við heimilisfólk. Það er einfaldlega þyngra en tárum taki. Og fyrir þá sem hafa áhuga á því hvernig stjórnvöld fara með skattfé almennings, má minna á að dvöl einstaklings sem ekki er hægt að útskrifa af Landspítala vegna skorts á úrræðum kostar að minnsta kosti um 70.000 kr. á sólarhring. Landspítalinn rekur svo biðdeild á Vífilsstöðum þar sem ríkið greiðir sjálfu sér 52.000 kr. á sólarhring fyrir þjónustu og aðstæður sem eru mun lakari en þær sem fólki býðst á hjúkrunarheimilum. Fyrir sólarhring á hjúkrunarheimilum greiðir ríkið hins vegar 38.000 kr. samkvæmt þjónustusamningi við rekstraraðila,“ skrifar Hanna Katrín.