„Nú er þetta allt stórfyrirtækinu Högum að kenna ef marka má svör formanns skipulagsráðs á Bylgjunni,“ skrifar arkitektinn Hilmar Þór Björnsson.
„Við vitum hinsvegar að tilgangur Haga er að hagnast og hlutverk skipulagsráðs er að gæta hagsmuna borgarbúa. Þetta virðist flækjast fyrir formanni ráðsins. Formaður skipulagsráðs gerði í viðtali í gær tilraun til þess að firra sig og pólitíkinni ábyrgð og sópa henni út af borði skipulagsráðs til fjárfesta. Þar sagði formaðurinn orðrétt:
„Hér erum við með Haga, stórfyrirtæki sem kemur þarna, og þetta er bara fyrirtæki sem er að þjónusta almenning og á allt sitt undir viðskiptum við almenning, og maður hefði haldið að þau hefðu þá einhvern metnað fyrir umhverfinu og huga að því. En það virðist ekki vera, því miður.“
Þetta er varla hægt að skilja öðruvísi en svoleiðis að skipulagsvaldið hefur þarna verið fært i hendur fjáraflamanna og fjármagnsins. Og þeim sé um að kenna!“
Hilmar Þór hélt áfram:
„Þetta er voðaleg afstaða hjá kjörnum fulltrúa sem beinlínis er kjörin til þess að gæta hagsmuna heildarinnar og borgaranna.
Þessi afstaða lýsir þvi, sem margir hafa talað um og það er að skipulagið sé unnið fyrir fjáraflamenn og braskara með hagsmuni þeirra sem meginmarkmið.
Aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 var frábært. Þaulhugsað og vel unnið undir stjórt formanns skipulagsráðs sem var fagmaður, arkitekt. Síðan þá hafa aðallega verið leikmenn sem setið hafa í stól formanna.
Eftir að AR2010-2030 var samþykkt hefur flest gengið illa i framkvæmdinni og nú er svo komið traust fólks á skipulagsmálum borgarinnar er orðið hverfandi.“