Heima er bezt

Skiptir rigningin sköpum?

By Miðjan

June 16, 2014

Stjórnsýsla Áfangaskýrsla um skipulag og framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands, sem Þórir Guðmundsson hefur unnið að beiðni utanríkisráðherra, hefur verið lögð fram til kynningar og samráðs áður en lokaúttekt verður kynnt í næsta mánuði.

Hér á eftir fer niðurlag skýrslunnar, sem er mjög upplýsandi.

„Svo ótrúlegt sem það kann að virðast þá hefur engin ein kenning getað útskýrt vel hvers  vegna sumar þjóðir eru fátækar og aðrar ríkar. Það skortir ekki viðleitni til að finna lykilinn að velgengni. Á Google Scholar má sjá að á undanförnum áratug voru gefnar út þúsundir rita sem reyndu að nálgast þessa spurningu með því að bera saman hagvöxt milli landa.

Hagfræðingar Alþjóðabankans sem fóru í fyrstu sendiferð bankans til þróunarlands, Kólumbíu, sögðu við heimkomuna að eina leiðin til að koma landinu upp úr fátækt væri breiðsíðuárás á öllum sviðum efnahagsmála – menntun, heilbrigði, húsnæði, matvæla og framleiðslu – og þannig væri hægt að vinna bug á heilsuleysi og lítillar framleiðni. Fimm áratugum síðar kom Harvard hagfræðingurinn Jeffrey Sachs með svipaðar kenningar og stóð fyrir því að prófa þær með svokölluðum Þúsaldarþorpum í Afríku.

Í báðum tilvikum komu fram aðrir hagfræðingar sem sögðu að hagvöxt væri ekki hægt að framkalla með stjórnvaldsaðgerðum heldur væri hann samsettur af óteljandi ákvörðunum einstaklinga um eigin hag. Samkvæmt hugmyndafræði Washington Consensus á níunda áratugnum gerði stjórnvaldið best í að víkja til hliðar; aflétta verðlagshöftum, eyða fjárlagahalla og einkavæða ríkisfyrirtæki.

Á bak við hagvaxtarfræðin er hin erfiða spurning um ástæður fátæktar og auðlegðar. Af hverju eru ríki Evrópu tiltölulega auðug en ríki Afríku fátæk? Er það vegna landfræðilegra staðhátta? Jared Diamond segir í bók sinni “Guns, Germs and Steel” að ástæðuna megi rekja til þess að evrasíska meginlandið teygist eftir breiddarbaugum en Afríka eftir lengdarbaugum. Íbúar Evrópu hafi getað flutt búferlum austur og vestur eftir svipuðum gróðursvæðum – og að það hafi auðveldað útbreiðslu matjurta, bústofna og tækni sem eru undirstaða framfara.

Aðrir benda á afleiðingar nýlendustefnu eða þrælaverslunar, sem var gífurleg blóðtaka fyrir Afríku. Sjúkdómar eiga vafalaust sinn þátt í því hvernig mál hafa skipast; evrópskir landnemar fluttu með sér farsóttir sem nánast útrýmdu fólkinu sem fyrir var í Ameríku og Ástralíu, en í Afríku urðu þeir oft að lúta í lægra haldi fyrir malaríu og öðrum pestum.

Skipta rigningar máli? Árið 1990 var landsframleiðsla á mann að meðaltali 2.475 bandaríkjadalir í 52 löndum með úrkomu undir einum sentímetra á ári í höfuðborg viðkomandi lands. En 56 lönd sem voru með meðalúrkomu yfir einum sentímetra í höfuðborginni nutu landsframleiðslu á mann sem var að meðaltali 7.320 bandaríkjadalir. Finna má margvíslegan samanburð af þessu tagi sem virðist útskýra auðlegð og fátækt betur en flestar hefðbundnar hagfræðikenningar.“