- Advertisement -

Skipstjórinn sem stígur ekki ölduna

Það þótti lofsvert þegar Bjarni Benediktsson felldi grímuna og gerði fyrrverandi stjórnarformann Samherja að sjávarútvegsráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn kvaddi pukrið.

Nokkuð var lagt á skipstjórann fyrrverandi, Kristján Þór Júlíusson, að halda um rattið á fjögurra ára siglingu. Honum hefur mistekist. Í ölduganginum nær hann ekki að stíga ölduna. Hann veltist milli borða og siglingin er þar af leiðandi æði skrykkjótt og ómarkviss.

Þolgæði innan flokksins er verða uppurin. Áhorfendur að siglingu Kristjáns Þórs sjá að hann veldur ekki hlutverkinu. Nú er kominn fram ósk eða krafa um að ráðherrann verði settur í land. Verði sviptur skipi og áhöfn. Grásleppukarlar eru að ærast yfir hvernig stýrt er. Og það að vonum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mismunun og bráðræði er ekki gott leiðarljós. Sama má segja um vinatengsl og jafnvel hagsmunatengsl. Sú djarfa ákvörðun Bjarna Benediktssonar að skipa samherjann Kristján Þór í sjávarútvegsráðuneytið hefur reynst hið mesta óráð. Jafnvel Bjarni hlýtur að sjá það. Er það ekki?

Sigling Kristjáns Þór virðist ætla að fá snautlegan endi. Fyrr eða síðar verður hann settur í land. Störf hans hafa mótast um of af bakgrunni hans. Vera kann að verkin dæmi hann ekki einungis út úr ráðuneytinu. Þingmennskunni hefur hann komið í mikla hættu. Það styttist til kosninga.

Það veit Kristján Þór og trúlega verður hann á undan og tekur poka sinn meðan hann fær nokkrum um það ráðið. Það yrði besti sýnilegi endir sem hugsast getur. Úr því sem komið er.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: