- Advertisement -

„Skilum náttúrunni hreinni til baka“

„Eitt mikilvægt atriði sem við þurfum að hafa í huga þegar þessi fyrirtæki eru að koma hingað og ætla að vindmylluvæða Ísland er að þau geri ráð fyrir förgun vindmyllnanna…“

Jakob Frímann Magnússon.

„Rétt í þessu var að ljúka ráðstefnu um möguleika Austurlands á að verða miðstöð nýrra orkuskipta á Íslandi, mjög ánægjuleg framtíðarsýn. Þarna var tilkynnt sömuleiðis í næsta húsi um nýjan samstarfssamning Íslendinga og Bandaríkjamanna á sviði grænnar orkuframleiðslu og þróunar,“ sagði Jakob Frímann Magnússon í þingræðu,

„Það er ljóst að í pípunum eru breytingar á sviði orkumála sem geta fært okkur aukinn hagvöxt sem vonandi nýtist í þágu allra sem hér kjósa að búa. Það eru stórframkvæmdir þegar í pípunum á vettvangi vindorku. Um leið og hægt er að ímynda sér að vindorka sé mjög eftirsóknarverð og dýrmæt leið til að afla tekna og tryggja orkuöryggi og orkuskipti þá eru ákveðnar áskoranir sem við þurfum að vera meðvituð um. Ég tel að til að mynda sé búið að eyðileggja stóran hluta af Skotlandi með vindmylluvæðingu. Ég deili þeirri skoðun með mörgum þingmanni hér á þinginu að það eigi að velja af mikilli kostgæfni fáa og helst afskekkta staði til að leyfa vindmyllubúskap.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er mikil sjónmengun sem getur fylgt þessu, sjónmengun sem getur að líta bæði í Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi, en í Bretlandi er helmingur allra vindmyllna í Evrópu saman kominn. Eitt mikilvægt atriði sem við þurfum að hafa í huga þegar þessi fyrirtæki eru að koma hingað og ætla að vindmylluvæða Ísland er að þau geri ráð fyrir förgun vindmyllnanna og brottnámi þeirra úr íslenskri náttúru þegar líftíma þeirra lýkur. Það þarf að gera ráð fyrir þessu í kostnaðaráætlunum. Ég minnti á það á fyrrnefndri ráðstefnu og ég vil að við höldum því sameiginlega til haga: Skilum náttúrunni hreinni til baka.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: