„Tvennt mikilvægt kom fram á fundinum. Ráðherra hefur mjög takmarkaðan skilning á stöðu þeirra sem verða öryrkjar ungir og bíður ekkert alla ævi en að lifa á bótum frá ríkinu.“
Átti fund með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, ráðherra og formanni VG, sl. mánudag um nýtt örorkukerfi. Guðmundur bauð mér í heimsókn eftir grein sem birtist eftir mig á Vísir í síðustu viku. Líklega hefur hann viljað leiðrétta einhverjar rangfærslur hjá mér.
Tvennt mikilvægt kom fram á fundinum. Ráðherra hefur mjög takmarkaðan skilning á stöðu þeirra sem verða öryrkjar ungir og bíður ekkert alla ævi en að lifa á bótum frá ríkinu. Hitt er að honum finnst mikilvægast að leiðrétta hlut þeirra sem hafa verulegar tekjur úr lífeyrissjóðum. Þetta er einmitt hópurinn sem kemur hvað best út úr breytingunum sem lagðar eru til.
Ég benti ráðherra á, að það sé hrein mannvonska að ætla að hækka greiðslur til einstæðra öryrkja, sem urðu ungir öryrkjar, um 4.020 kr., meðan greiðslur til þeirra sem eru í sambúð, urðu frekar seint á starfsævinni öryrkjar og eiga mikil réttindi í lífeyrissjóðum eiga að hækka jafnvel um á annað hundrað þúsund á mánuði. Honum fannst það hins vegar nauðsynlegt réttlætismál.
Ég styð heilshugar, að greiðslur til allra hækki, en það verður að vera réttlæti í því hvernig hækkunum er dreift. Ég benti ráðherra á tvennt sem sérstaklega kemur illa við hóp einstæðra öryrkja sem urðu öryrkjar ungir (og skiptir þá engu máli hve gamlir þeir eru í dag). Annað er að aldursviðbót er skert um 55%, sem er blaut tuska í andlit þessa fólks. Hitt er að óskert heimilisuppbót er lækkuð um 11.000 kr. á mánuði. Er núna 68.000 kr., meðan heimilisuppbót ellilífeyrisþega er 84.000 kr. Getur einhver komið með rök fyrir því, að það sé ódýrara að búa einn sem öryrki en ellilífeyrisþegi? Ráðherra vék sér undan því að svara spurningunni.
Síðan viðurkenndi ráðherra tvenn mistök. Önnur eru að ekki var ætlunin að virknistyrkur þeirra, sem metnir eru með 26-50% starfsgetu, myndi hverfa við það eitt að fá lágar tekjur, eins og frumvarp ráðherra leggur til. Hin eru að hann gleymdi að nefna í kynningu sinni fyrir fjölmiðlum, að fjárhæðir yrðu uppreiknaðar um áramót.
Bendi svo fólki á að lesa grein Unnar Helgu Óttarsdóttur, formanns Landsamtakanna Þroskahjálpar, á visir.is (sjá: https://www.visir.is/…/oll-med-4.020-kr.-haekkun-fyrir…). Við tölum á mjög skipuðum nótum, enda skiljum við ekki illskuna í frumvarpi ráðherra, að skilja útundan hóp einstaklinga sem hafa verið öryrkjar alla sína ævi. Já, varðandi þennan hóp þá var ráðherra nánast hneykslaður á því að fólk í honum fengi yfir 450.000 kr. á mánuði (fyrir skatta), þegar búið væri að bæti við öllum þeim plástrum sem til eru í skúffum ráðherra.
Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. Miðjan valdi fyrirsögnina.