Inga Sæland, og aðrir þingmenn Flokks fólksins, eiga frumvarp um breyttar strandveiðar. Málið er á dagskrá Alþingis í dag.
„Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði brott ákvæði um strandveiðar í lögum um stjórn fiskveiða sem setja þau skilyrði að óheimilt sé að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga og að ráðherra geti með reglugerð bannað strandveiðar á almennum frídögum,“ segir í greinagerðinni.
„Nokkur reynsla er komin á nýtt fyrirkomulag strandveiða sem innleitt var með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða sem samþykktar voru á Alþingi 26. apríl 2018. Strandveiðikerfið er að mörgu leyti vel heppnuð ráðstöfun. Veiðunum fylgja umtalsverð umsvif í höfnum og kærkomnar tekjur á landsbyggðinni yfir sumartímann en síðustu tvö strandveiðitímabil hefur ekki tekist að fullnýta úthlutaðar aflaheimildir til strandveiða.
Heildarviðmið afla til strandveiða sumarið 2018 voru 10.200 tonn af óslægðum botnfiski. Alls voru 548 bátar á strandveiðum og varð heildaraflinn 9.396 tonn. Því voru 804 tonn af kvótabundnum tegundum óveidd af þeim heimildum sem voru ætlaðar til strandveiða það sumar. Heildarþorskaflinn á tímabilinu var 9.075 tonn. Miðað við aflasamsetningu og meðalverð strandveiðiafla sumarið 2018 má ætla að verðmæti óveidds þorsks hafi numið um 200 millj. kr.
Svipað er uppi á teningnum þegar tölur fyrir strandveiðitímabilið 2019 eru skoðaðar. Aflaheimildin fyrir strandveiðar var 11.100 tonn af óslægðum botnfiski í kvótabundnum tegundum. Alls voru 623 bátar á strandveiðum og varð heildaraflinn rúm 9.700 tonn. Því voru um 1.350 tonn óveidd í lok tímabilsins 2019. Samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu var strandveiðiaflinn nær eingöngu þorskur en alls veiddust tæp 9.170 tonn af þorski. Verð á þorski var ríflega þriðjungi hærra sumarið 2019 en sumarið 2018. Sé varlega áætlað að meðalverð hafi verið 320 kr./kg má reikna með að rúmlega 400 millj. kr. aflaverðmæti í þorski hafi verið óveitt í lok vertíðar 2019.
Það er umhugsunarefni að ekki takist að nýta aflaheimildir sem úthlutað er til strandveiða. Margar breytur hafa hér áhrif og vega náttúrulegar sveiflur sjálfsagt þyngst í þeim efnum. Þar má nefna dræma fiskgengd og gæftaleysi. Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða eru líka lagðar verulegar takmarkanir á veiðigetu strandveiðiflotans. Þar má nefna að einungis má veiða ákveðna daga í viku hverri í maí, júní, júlí og ágúst. Veiðidagar á hvern bát eru að hámarki 12 í hverjum mánuði. Aðeins má nota handfærarúllur og ekki fleiri en fjórar í hverjum bát. Tímatakmarkanir eru á hverri veiðiferð og hámarksafli í veiðiferð er 650 kg þorskígildi af kvótabundnum tegundum.
Eins og fyrr er greint stunduðu 548 bátar strandveiðar sumarið 2018 og 623 sumarið 2019.
Veruleg þjóðhagsleg fjárbinding er í þessum flota. Vart getur talist þjóðhagslega hagkvæmt að á hverju sumri brenni inni veiðiheimildir fyrir hundruð milljóna króna reiknað í aflaverðmæti. Þjóðarbúið í heild verður af tekjum.“
Hér er hægt að lesa frumvarpið, en það er lítið eitt breytt.