Greinar

Skilja þau Sjálfstæðisflokkinn eftir

By Miðjan

November 04, 2020

Styrmir Gunnarsson: „Að óbreyttu eru því töluverðar líkur á vinstri stjórn eftir kosningar.“

„Nýjasta könnun Gallup er enn ein staðfesting á því, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst verulegan hluta af sínu fyrra fylgi, þótt hann sé enn stærsti flokkurinn,“ skrifar Styrmir Gunnarsson á vef sinn, styrmir.is.

Styrmir telur að vinsti stjórn, með bæði þátttöku VG og Framsóknar, verði mynduð eftir kosningarnar í september á næsta ári.

„RÚV lagði áherzlu á í sínum fréttum af þessari könnun að ekki væri hægt að mynda þriggja flokka ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins. En það breytir ekki því að það er hægt að mynda fjögurra flokka ríkisstjórn án hans.

Síðustu vikur hafa verið að koma fram sterkar vísbendingar um að Framsóknarflokkurinn sé farinn að horfa til vinstri eins og margsinnis hefur gerzt í sögu þess flokks. Í því felast hugmyndir um samstjórn fjögurra flokka, þ.e. Framsóknarflokks, Samfylkingar, Vinstri grænna og fjórða flokks. Þá er helzt talað um Pírata.“

Þara teflir Styrmir á tæpasta vað. Fátt bendir til samstarfs Pírata og Framsóknar. Áfram með Styrmi:

„Af hverju horfir Framsókn til vinstri? Sennilega er ein ástæða þess sú, að forystumenn flokksins telji það vænlega leið til þess að endurheimta fylgi flokksins eftir klofninginn, þegar fyrrverandi formaður flokksins stofnaði Miðflokkinn,“ skrifar Styrmir af reynslu. Reynslu sem segir honum að Framsókn sé ekki flokkur pólitískra sjónarmiða. Heldur  sveiflist hann til og frá, allt eftir hvar verði best að halda í einhver völd.

„Að óbreyttu eru því töluverðar líkur á vinstri stjórn eftir kosningar. Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkur að bregðast við þeirri stöðu? Er ekki kominn tími til að ræða mikið fylgistap á vettvangi flokksins og hvernig við skuli bregðast?“

Þannig endar Styrmir í dag og vonast enn til að vandamál Sjálfstæðisflokksins verði rædd meðal flokksfélaga. Veik von.