Ólafur Ólafsson er með ófínni pappírum dagsins. Svo er komið að fólki þykir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eigi að rifta samningi um uppbyggingu og skipulag á landi sem félag Ólafs á.
Hitt hefur komið fram að annað félag Ólafs eftirlét Framsóknarflokknum hús það við Hverfisgötu í Reykjavík þar sem höfuðstöðvar flokksins eru til húsa.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi formaður hans, hafa bæði lagt áherslu á að Ólafur Ólafsson hafi blekkt allt og alla og þar með alla þá framsóknarmenn sem komu að kaupum og sölu Búnaðarbankans á sínum tíma.
Hvert tækifæri er notað til að toga aðra framsóknarmenn frá gallagripnum Ólafi. Síðast á Alþingi í morgun sagði Sigurður Ingi: „Það var afar sérstakt og vont að sjá niðurstöðu rannsóknarskýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í gær þar sem skýrt er að mati þeirra sem skýrsluna unnu að einn kaupenda að Búnaðarbankanum á sínum tíma hafi með samstarfsmönnum sínum blekkt alla, stjórnvöld, almenning, eftirlitsaðila og jafnvel samstarfsaðila að kaupunum einnig.“
Vilji Framsókn að sem stærst vík sé milli vina, eða kannski á að segja fyrrverandi vina, má spyrja hvort ekki væri fínt fyrir Framsóknarflokkinn að skila eigninni til Hverfisgötu til þess sem afsalaði henni yfir til Framsóknarflokksins.
Þess ber að sjálfsögðu að geta að þiggjandi hússins, það er Framsókn, tók að sér, að best er vitað, lán sem hvíldi á eigninni.
Hér má lesa frétt um Ólaf, Framsókn og húsið.
Sigurjón M. Egilsson.