- Advertisement -

Skerðingar á mannréttindum verða að vera í samræmi við lög

obi.is: „Allar skerðingar á mannréttindum eru áhyggjuefni. Þær þurfa að vera í samræmi við lög, nauðsynlegar í lýðræðissamfélagi, stefna að lögmætu markmiði og afar mikilvægt er að gæta meðalhófs, það er beita aldrei harðari ráðstöfunum en nauðsyn ber til og ekki lengur en þörf er á.“ Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn og fulltrúaráð Mannréttindaskrifstofu Íslands hefur sent frá sér.

Um allan heim hafa stjórnvöld gripið til aðgerða til að hindra útbreiðslu COVID-19 og hafa mannréttindi fólks verið skert til að ná því markmiði. Nærtæk dæmi eru skerðing á ferðafrelsi og frelsi til að koma saman en jafnframt hafa átt sér stað skerðingar á friðhelgi einkalífs og persónuupplýsingavernd, sem og skerðing efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda.

Allar skerðingar á mannréttindum eru áhyggjuefni. Þær þurfa að vera í samræmi við lög, nauðsynlegar í lýðræðissamfélagi, stefna að lögmætu markmiði og afar mikilvægt er að gæta meðalhófs, það er beita aldrei harðari ráðstöfunum en nauðsyn ber til og ekki lengur en þörf er á.

Mannréttindasáttmálar og löggjöf nægja ekki ein og sér til að tryggja mannréttindi. Flest mannréttindi krefjast skilvirkra aðgerða af hálfu stjórnvalda til að þau séu í heiðri höfð. Réttar og markvissar ráðstafanir til að draga úr útbreiðslu COVID-smits eru vissulega mikilvægar með tilliti til mjög mikilsverðra mannréttinda fólks, þ.e. réttarins til lífsins og réttarins til heilsu og alveg sérstaklega hvað varðar berskjaldaða hópa að því leyti, svo sem fólk með tilteknar líkamlegar fatlanir og/eða sjúkdóma og aldrað fólk. Stjórnvöld þurfa þó að gæta meðalhófs og gæta þess vel að skerða ekki önnur mannréttindi og mannréttindi annarra hópa meira en nauðsyn ber til. Því þurfa stjórnvöld að meta hvort og hvernig aðgerðir þær sem gripið er til geti haft mismunandi áhrif á þjóðfélagshópa og viðhafa sérstakar aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun. Sömuleiðis ber að taka mið af stöðu kynjanna og þörfum viðkvæmra hópa, svo sem fatlaðs fólks, innflytjenda, aldraðra og barna, tímabundnar aðgerðir geta haft langvarandi og jafnvel varanleg áhrif á einstaklinginn sem fyrir þeim verður.

Í ljósi þessa hvetja stjórn og fulltrúaráð Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) stjórnvöld til þess að tryggja samþættingu mannréttindasjónarmiða við alla ákvarðanatöku og í verkefnum og stefnumótun vegna aðgerða gegn COVID- 19 og endurreisn samfélagsins. Við þá vinnu verði m.a. tekið mið af sjónarmiðum alþjóðlegra eftirlitsaðila um framkvæmd Íslands á mannréttindaskuldbindingum og sjónarmiðum sérfræðinga á þessu sviði, bæði úr hópi fræðimanna og frjálsra félagasamtaka.

Jafnframt minna stjórn og fulltrúaráð MRSÍ á að íslensk stjórnvöld hafa ítrekað verið hvött til þess að setja á laggirnar sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun í samræmi við Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna frá 1991 Á tímum sem þessum þar sem stjórnvöld og borgarar standa frammi fyrir miklum áskorunum er varða grundvallarmannréttindi er mikilvægi eftirlits og öflugrar mannréttindastofnunar augljósara en nokkru sinni. Stjórnvöld eru  hvött til þess að bæta úr svo fljótt sem verða má.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: