- Advertisement -

Skerða öryrkja og eldri borgara um 60 milljarða

Þetta er hópurinn sem á ekki fyrir mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum í lok mánaðarins.

„Það sem ég get ekki skilið er hvers vegna í ósköpunum einhverjum datt í hug að borga út barnabætur til þeirra sem áður hafa ekki fengið þær vegna þess að þeir hafa verið of tekjuháir og þar af leiðandi fallið undir skerðingar en á sama tíma hefur ríkið, ár eftir ár, núverandi ríkisstjórn og fyrrverandi ríkisstjórnir, stóraukið skerðingar til eldri borgara og öryrkja,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins.

„Ef við setjum þetta í eitthvert samhengi þá eru skerðingar í dag um 60 milljarðar hjá eldri borgurum og öryrkjum. Þar erum við að tala um 5 milljarða á mánuði. Ef við viljum taka út einhverjar skerðingar þá gætum við byrjað þarna,“ sagði Guðmundur Ingi.

„Ef við setjum það í samhengi við allan björgunarpakkann upp á 230 milljarða, eins og hefur verið sagt, þá væri það lítið í prósentum talið ef einn mánuður hefði verið tekinn út og hætt að skerða. En það dugir ekki til. Eins og áður hefur komið fram er þarna stór hópur undir sem lendir ekki einu sinni í skerðingum og er á langlægstu bótunum. Honum þarf að hjálpa og taka utan um. Ef við gerum það ekki á róðurinn eftir að þyngjast verulega vegna þess að þetta er hópurinn sem á ekki fyrir mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum í lok mánaðarins.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: