Vinir Gylfa Bergmann Heimissonar eru harmi slegnir eftir að hann var myrtur í Barðavogi síðastliðið laugardagskvöld. „Þvílíkt topp og eðalmenni sem þú varst elsku Gylfi Bergmann. Þín verður sárt saknað,“ er meðal þess sem vinir hann rita í hlýjum minningarorðum um Gylfa.
Gylfi var fæddur árið 1975 en hann lætur eftir sig fjögur börn á aldrinum tveggja til 24 ára. Hann bjó í kjallara hússins við Barðavog en hann festi kaup á íbúðinni í mars 2021.
Gylfi var þekktur í veitingageiranum. Hann kom meðal annars að hinum vinsælu veitingastöðum Gastro Truck en tveir vagnar staðarins voru starfrækir í Mathöllinni Höfða og Mathöllinni Granda.
Þorvarður Goði Valdimarsson, fyrrverandi nágranni Gylfa, segir sársaukann skarandi. „Skerandi sársauki að lesa að Gylfi Bergmann hafi verið myrtur á svona tilgangslausan og óskiljanlegan hátt. Ég hef ekki hitt ljúfari mann, kynntist honum lauslega þegar hann og fjölskylda hans bjuggu á Suðurgötunni í Hafnarfirði. Þá var hann að smíða fyrsta Gastro Truck bílinn, þvílíkur dugnaður og metnaður sem einkenndi hann, alltaf stutt í brosið og vinalegt viðmót. Ég vil votta börnum hans og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur“
Í kjölfar dánarfregnanna hafa margir skrifað falleg minningaroð og kveðjur til Gylfa sem birst hafa á Facebook. Hér fyrir neðan má finna nokkrar þeirra:
„Hvíldu í frið elsku Gylfi. Ég elska þig.“
„Guð geymi þig elsku fallegi Gylfi Bergmann. Mínar dýpstu samúðarkveðjur til aðstandenda og fjölskyldu,“
„Hvernig má það vera að það voru engin úrræði, er í alvörunni ekkert úrræði fyrir þessi skrímsli sem ganga laus og OFT búið að kvarta yfir? Gylfi var bara rangur maður á röngum stað og nú eru fjögur börn sem hafa misst föður sinn í blóma lífsins og eitt barnið of ungt til að muna,
Elsku Gylfi Bergmann Heimisson takk fyrir það liðna og fyrir síðasta spjallið sem við áttum ekki fyrir svo löngu, framtíðin var svo björt. Hugur minn er hjá aðstandendum,“