Stjórnarandstaða á Alþingi er sem klapplið ríkisstjórnarinnar. Björn Leví Gunnarsson undirstrikar þessa kenningu í Moggagrein í dag. Hann rifjar upp öfga Davíðs Oddssonar, frá því hann var í minnihluta í borgarstjórn, sér og sínum til réttlætingar.
Davíð sagði þá: „Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“
Auðvitað var stefna Davíðs full öfgakennd. „Mesta freistingin til þess að misnota vald er nefnilega í neyðarástandi. Þá er mjög auðvelt að réttlæta allt, hvort sem réttlætingin stenst skoðun eða ekki. Neyðin gerir ábyrgð stjórnvalda vegna aðgerða mun meiri sem og gagnrýni stjórnarandstöðu. Að beita aðferðafræðinni „að hjóla í öll mál“, sama hvað, er því sérstaklega óheiðarleg pólitík þegar um neyðarástand er að ræða,“ segir Björn Leví og sest mæðulegur á bekk klappliðsins.
Hann færir rök fyrir afstöðu sinni: „Mig langar því að segja það eins skýrt og greinilega og ég get. Þótt ég gæti sagt eitt og annað um aðgerðir stjórnvalda á undanförnum dögum þá hafa þær í heildina verið ágætar. Það er alltaf hægt að segja að það þurfi að gera meira, en þess háttar gagnrýni er nákvæmlega sú skemmdarverkastjórnarandstöðufræði sem Davíð Oddsson stundaði. Skemmdarverkapólitík sem grefur undan almennu trausti í samfélaginu og fríar valdhafa frá ábyrgð í alvarlegum málum.“
Er alltaf hægt að segja að þurfi meira? Nú, hvernig væri þá að nefna dæmi um það? Einmitt í ástandi eins og nú má enginn missa sig í aðdáun á ráðandi afli. Ekki einn einast og alls ekki þingmenn. Núverandi ríkisstjórn er upptekin við, og hefur verið, að breikka bilið sem mestu hún getur. Bilið milli þeirra sem mest hafa og þeirra sem minnst hafa. Þá er vont að hafa liðónýta stjórnarandstöðu.
Ekki er von á góðu.