- Advertisement -

Skemmdarverk seðlabankastjóra

Að þetta komi frá seðlbankastjóra er með ólíkindum. Er þetta til þess fallið að færa SÍ aukinn trúverðugleika?

Kristján Þórður Snæbjarnarson.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, skrifaði:

„Það er hreint út sagt með ólíkindum að lesa viðtal við seðlabankastjóra í Mogganum í dag. Vanstilling er orð sem kemur upp í hugann en það vekur upp spurningar þegar stjórinn er farinn að vitna í tveggja manna tal og það aðila innan embættismannakerfis hins opinbera. Eru það eðlileg vinnubrögð? Það sem verra er að túlkun á samtalinu hafi verið með þeim hætti sem hann lýsir í viðtalinu því ég dreg stórlega í efa að þetta hafi farið fram með þeim hætti sem hann lýsir.

Ég sé að hann skýtur föstum skotum á okkur í verkalýðshreyfingunni og ekki minnkar vanstillingin því hann áttar sig líklega á því að núverandi ástand er fyrst og fremst tilkomið vegna aðgerða og aðgerðaleysis Seðlabankans á tímum heimsfaraldurs, þegar vextir voru lækkaðir verulega og langt umfram það sem eðlilegt telst og á sama tíma talaði sami aðili fyrir því loksins væru tímar lágra vaxta til framtíðar raunin á Íslandi og í raun kynti undir báli fasteignamarkaðar og þrýsti verði upp úr öllu valdi. Aðgerðaleysi var að á sama tíma og vextir voru lækkaðir að takmarka ekki svigrúm til skuldsetningar og fjárfestingar.

Hann er ekki á neinn hátt tilbúinn að viðurkenna eigin mistök en algjör snillingur í að kenna öðrum um. Nú er ráðaleysi SÍ svo mikið að það þarf að reyna að búa til sögur um fólk, skamma verkalýðsleiðtoga og sýna þeim í tvo heimana. Að þetta komi frá seðlbankastjóra er með ólíkindum. Er þetta til þess fallið að færa SÍ aukinn trúverðugleika? Ég er hræddur um ekki. Er líklegt að það verði grundvöllur fyrir einhverju djúpu samtali, um efnahagsmál og þróun fram á við, við þessar aðstæður? Það efast ég um.“

Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: