Vilhjálmur Birgisson skrifar: Hérna getur almenningur séð þá skefjalausu aðför sem nú er í gangi gegn Sólveigu Önnu formanni Eflingar. En í fréttum í Morgunblaðinu hefur því verið haldið fram að fjármálastjóri og bókari Eflingar séu í veikindaleyfi vegna þess að þeir hafi ekki viljað greiða reikning upp á eina milljón vegna verkefnisins „Fólkið í Eflingu“ þar sem ekki hafi legið fyrir stjórnarsamþykkt. Það kom fram í fréttinni hjá Morgunblaðinu að búið hefði verið að greiða 4 milljónir vegna þessa verkefnis.
Aðförin í þessu máli ríður ekki við einteyming, enda liggur fyrir samkvæmt yfirlýsingu frá Eflingu stjórnarsamþykkt fyrir þessu verkefni upp á 4 milljónir.
Efling birtir yfirlýsingu í dag um að það hafi borist þrír reikningar vegna verkefnisins, samtals að upphæð 3.174.400 krónur og hafi þeir allir verið greiddir enda liggur fyrir stjórnarsamþykkt fyrir þessu flotta verkefni sem ber heitið Fólkið í Eflingu.
Í ljósi þessara staðreynda væri þá ekki þjóðráð fyrir Morgunblaðið að krefja fjármálastjóra Eflingar sem nú er í veikindaleyfi um svör við því um hvað málið snýst í ljósi þeirra bláköldu staðreynda að ekkert sé búið að greiða umfram það sem stjórn félagsins ákvað og heimilaði varðandi verkefnið „Fólkið í Eflingu?“
Af hverju er fjármálastjórinn í veikindaleyfi í ljósi þess að allir reikningar sem komnir eru fram, eru innan samþykkta stjórnar Eflingar. Af hverju leiðréttir fjármálastjórinn ekki þær rangfærslur sem eru í gangi hjá Morgunblaðinu um að búið hafi verið að greiða 4 milljónir og síðan hafi komið reikningur upp á milljón til viðbótar þegar liggur fyrir að það er kolrangt?
Er málið kannski þannig að lítil hluti starfsmanna á skrifstofu Eflingar sættir sig ekki við að ný stjórn sé komin til valda og vilji ekki vinna með nýrri stjórn og vilji frekar koma höggi á Sólveigu Önnu og hennar fólk.
Það verður að segjast alveg eins og er að það er orðið undarlegt að gamla valdaklíkan í Eflingu sem tapaði í kosningunum sé að leka röngum upplýsingum og það til Morgunblaðsins!
Það blasir við að valdaöflin í íslensku samfélagi hræðast kraftinn og dugnaðinn í Sólveig Anna Jónsdóttir og því er reynt að koma höggi á hana og skiptir litlu máli hvort sannleikurinn sé viðhafður í slíkum árásum!