Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, skrifar:
Ég las grein í blaði á dögunum eftir mann á góðum aldri. Hann var ósáttur við það hvernig við færum með eldri borgara þessa lands – fólkið sem byggði upp landið og samfélagið. Hann var ómyrkur máli og skammaði yngri kynslóðir. Þetta er ekki fyrsta greinin og án efa ekki sú síðasta sem ég les um þetta efni. Margir eru ósáttir við þau sem núna eru á vinnumarkaði og virðast hafa gleymt hinum eldri. Hann skautaði hins vegar framhjá ákveðnum staðreyndum. Kynslóðin sem nú er komin á eftirlaun, reyndar nokkuð breytt bil eða fólk á aldrinum 65 til 105 ára, ber nefnilega talsverða ábyrgð á því hvernig það er að vera gamall á Íslandi í dag. Mjög stór hluti þessa fólks taldi það skynsamlegt að hafa skatta sem lægsta á Íslandi. Það þótti, og þykir því miður enn, betra að horfa í átt til svokallaðs frelsis Bandaríkjanna og annarra sambærilegra þjóða þegar kemur að rekstri samfélagsins frekar en til hins norræna velferðarsamfélags. Skattar voru gegnumgangandi frá seinna stríði og í raun til dagsins í dag 20-40% hærri í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en á Íslandi. Þeir efnameiri greiddu jafnvel 100% hærri skatta þar en hér á Íslandi. Þessi hugsun hefur komið okkur í þá stöðu sem við erum í.
Afleiðingarnar koma alltaf betur og betur í ljós. Hvað þarf að bíða lengi eftir viðtali við lækni á heilsugæslunni? Hvernig er staðan á bráðamóttökunni? Hvernig er heilbrigðisþjónustan á landsbyggðinni? Hvað þarf að bíða lengi eftir plássi á hjúkrunarheimili? Hvað þarf að bíða lengi eftir tíma hjá geðlækni? Hvernig er geðheilbrigðiskerfið almennt? Hvernig gengur að manna leikskólana? Hvernig hafa öryrkjar það á Íslandi? Hvernig hafa eldri borgarar það sem ekki gátu lagt til hliðar peninga á langri starfsævi? Við getum þannig farið yfir alla þætti opinbers reksturs og spurt þessara spurninga. Svörin blasa við.
Ísland er lítið land. Það kostar meira að reka litlar einingar en þær stærri. Hagkvæmni stærðarinnar gerir það að verkum að skattar ættu í rauninni að vera umtalsvert hærri hér en á Norðurlöndum. Fyrir utan kostnaðinn við örmyntina sem við notum. Það er sorglegt að sjá hve margir virðast ekki sjá þetta samhengi. Það verða lengri og lengri raðir á Læknavaktinni Austurveri. Það verða fleiri og fleiri á biðlistum. Það blasir við. Nema þjóðin átti sig á því að samfélag er þegar öll taka þátt og leggja sanngjarnan skerf til samneyslunnar.
Ef fólk berst fyrir því að borga sem lægsta skatta allt sitt líf þá er óhjákvæmilegur fylgifiskur að bíða eftir nauðsynlegri opinberri þjónustu svo mánuðum og árum skiptir.