- Advertisement -

Skattleggjum hin ríku og náum völdum

Það er auðvitað algjörlega óþolandi að tekjuhæsta fólkið greiði ekki til sveitarfélagsins.

Gunnar Smári skrifar:

Þótt það sé aðeins lítið hænuskref, að borgarstjórn hafi vísað tillögu sósíalista um að borgin beiti sér fyrir kröfugerð á hendur Alþingi um að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur, þá ber að fagna þessu. Það er auðvitað algjörlega óþolandi að tekjuhæsta fólkið greiði ekki til sveitarfélagsins, til skóla, leikskóla, gatna og innviða, eins og fátækasta fólkið og almenningur allur. Afnám útsvars af fjármagnstekjum er ein af mörgum kórvillum nýfrjálshyggjunnar.

Verkefni þessi misserin er að skrúfa ofan að eyðileggingu þessarar heimskulegu stefnu og fyrirbyggja áframhaldandi niðurbrot hennar á samfélaginu. Til að gera það þarf að nefna hlutina.

·         Skattleggjum hin ríku!

·         Verjum eigur almennings fyrir auðvaldinu!

·         Færum völdin til fólksins!

Þegar það gekk ekki eftir var hið opinbera skuldsett og síðan var því haldið fram að það gæti ekki staðið undir opinberri þjónustu nema að rukka fyrir hana; það sem áður var gjaldfrjálst varð gjaldskylt.

Nýfrjálshyggjan gekk út á að lækka skatta hinna ríku undir loforði um að það myndi bara bæta hag ríkissjóðs, hin ríku myndu nota peninginn til að „skapa“ fleiri störf og auka almenna velmegun. Þegar það gekk ekki eftir var hið opinbera skuldsett og síðan var því haldið fram að það gæti ekki staðið undir opinberri þjónustu nema að rukka fyrir hana; það sem áður var gjaldfrjálst varð gjaldskylt. Þagar það dugði ekki til var því haldið fram að almenningur yrði að selja eigur sínar til að grynnka á skuldum sínum, að við ættum að selja ríkisfyrirtæki og nota andvirðið til að standa undir grunnkerfum samfélagsins og innviðum sem voru að hruni komnir vegna þess að hin ríku voru hætt að borga skatta. Þegar gjaldskylda var komin á opinbera þjónustu var spurt: Þarf ríkið að reka þetta? Ef þetta er hvort sem er orðið eins og hver önnur viðskipti; geta þá einkafyrirtæki ekki gert þetta miklu betur en stofnanir ríkis og sveitarfélaga? Þegar það dugði ekki til (einkarekstur er ávallt dýrari en opinber rekstur) voru skattar á almenning hækkaðir ofan á aukna gjaldtöku.

Samhliða þessu var rekinn áróður fyrir skaðsemi hins pólitíska valds og því haldið fram að það gæti aldrei komist að réttri niðurstöðu, þótt það hafi byggt upp ókeypis heilbrigðisþjónustu, skóla fyrir alla, vegi, hafnir, flugvelli og aðra innviði – í raun allt sem einhvers virðis er í samfélaginu. Því var haldið fram að hinn svokallaði markaður myndi ávallt leiða fram rétta niðurstöðu. Hið pólitíska vald, sem er brjóstvörn almennings gagnvart auðvaldinu, var því svipt völdum yfir mótun atvinnustefnu, gengisstefnu, vaxtastefnu, húsnæðisstefnu, skipulags, uppbyggingu heilbrigðiskerfis o.s.frv. Nánast allar ákvarðanir voru fluttar frá hinu pólitíska valdi, þar sem hver maður hefur eitt atkvæði, yfir á hinn svokallaða markað, þar sem hver króna hefur eitt atkvæði og hin ríku ráða öllu.

Nýfrjálshyggja er því annars vegar rán á eigum almennings og úr ríkissjóði með lækkun og afnámi skatta á hin ríku og hins vegar valdarán sem svipti almenningi völdum, dró úr völdum og áhrifum hins lýðræðislega vettvangs og batt hendur almannasamtaka á borð við verkalýðshreyfingarinnar sem hafði verið farvegur krafna almennings um réttlæti og jöfnuð fram eftir síðustu öld.

Krafa almennings í dag er því:

·         Við viljum fá völdin okkar aftur

·         Við viljum fá eigur okkar aftur

·         Við viljum fá peningana okkar aftur, þá sem þið stáluð

Þetta eru frumskilyrði þess að almenningi takist að byggja upp samfélag réttlætis og jafnaðar og bjarga jörðinni og loftslaginu frá eyðileggingu kapítalistana. Hvorugt er hægt meðan auðvaldið heldur völdum bæði gegnum peningavaldið og í gegnum framsal á völdum almennings til hins svokallaða markaðar. Hrörnandi samfélag og hrörnandi náttúra og loftslag eru hvort tveggja sjúkdómseinkenni sama meins; alræðis auðvaldsins.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: