SKATTLEGGJUM HIN RÍKU!
Gunnar Smári skrifar:
Samkvæmt tekjublaði Stundarinnar var 0,1% tekjuhæstu íbúa landsins með um 39,7 milljarða króna í tekjur á árinu 2018. Þar af voru 8,1 milljarður króna launatekjur en 31,6 milljarðar króna voru fjármagnstekjur. Rétt tæplega 80% af tekjum hinna tekjuhæstu komu af fjármagni, ekki af atvinnu. Af þessum sökum var skattbyrði hinna allra tekjuhæstu mun lægri en hjá fólki almennt eða 24,6%. Það er álíka skattbyrði og hjá launafólki með 440 þúsund krónur á mánuði. Meðallaun 0,1% hinna tekjuhæstu var hins vegar um 15,4 m.kr. á mánuði, 35 sinnum hærri en launafólkið sem bar álíka skattbyrði.
Samanlagður skattur 0,1 prósentsins var 9,8 milljarðar króna en hefði átt að vera 18,0 milljarðar króna ef fjármagnstekjur bæru sambærilega skatta og launatekjur. Hið opinberra varð því af um 8,2 milljörðum króna vegna skattaafsátts á fjármagnstekjur. Það jafngildir að hver hinna 215 tekjuhæstu hafi fengið 38 m.kr. skattaafslátt árið 2018 eða sem nemur 3,2 m.kr. á mánuði.
Skattaafslátturinn sem 215 hinna tekjuhæstu fengu vegna tekna ársins 2018 er sama upphæð og hefði dugað til að afnema skatta af 13.631 öryrkjum, sem höfðu 281.972 kr. í örorkubætur með heimilisuppbót í fyrra. Það er nálægt þeim fjölda öryrkja sem var á fullum örorkubótum í fyrra. Í stað þess að láta það fólk, sem án vafa er með því allra fátækasta á landinu, njóta skattleysis kusu stjórnvöld að verja sömu upphæð til að gefa allra ríkasta fólkinu á Íslandi, aðeins 215 manns, skattaafslátt upp á 8,2 milljarða króna. Skattaafsláttur hvers og eins hinna tekjuhæstu jafngildir að meðaltali því sem dugað hefði til að gefa eftir skatta til 63 á örorkubótum, hækka ráðstöfunartekjur hvers um sig um rúmar 50 þús. kr. á mánuði. Það munar sannarlega um minna.
Þar sem útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur koma sveitarfélögin sérstaklega illa út úr skattfríðindum hinna ríku. 0,1% hinna tekjuhæstu hefðu átt að borga 5,8 milljarða króna í útsvar en greiddu aðeins 1,2 milljarða króna. Tapaðar útsvarstekjur vegna tekna 0,1% hinna tekjuhæstu nema um 4,6 milljörðum króna. Það eru um 2% af öllum útsvarstekjum sveitarfélaganna, tekjur sem ekki eru innheimtar af allra tekjuhæsta fólkinu. Fyrir þær tekjur mætti reka leikskóla fyrir níu þúsund börn, þ.e. tryggja öllum börnum leikskólavist frá enda fæðingarorlofs foreldranna og gott betur. Sú ákvörðun að láta hin ríku ætíð ganga fyrir, að styrktarframlagið til þeirra komu fyrst og skerði möguleika á að byggja upp þjónustu innan sveitarfélaganna veldur því að við búum í ójafnara samfélagi, óöruggara, erfiðara og dýrara.