- Advertisement -

Skattarnir eru sniðnir að þeim ríku

Það sem virðist vera hækkun er því í raun lækkun. Hin ríku eru alsæl með þessa skattabreytingu. Karlar eru 53,5% fólks á vinnumarkaði en verða 76% þeirra sem fá fulla lækkun tekjuskatts samkvæmt tillögu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Gunnar Smári Egilsson.

Veigamestu skattabreytingarnar sem ríkisstjórnin hefur kynnt eru báðar til að bæta hag hinna betur settu.

Ríkisstjórnin hefur þegar fengið í gegn breytingu á fjármagnstekjuskatti og kynnti hana sem hækkun. Skattprósentan var lækkuð úr 20% í 22% en með þeirri breytingu að skattstofninn er ekki bara arður, vextir eða aðrar fjármagnstekjur heldur þessar tekjur að teknu tilliti til verðbreytinga. Ekki hefur komið fram hvernig þetta verður reiknað en gera má ráð fyrir að 500 m.kr. arður af 2.500 m.kr. hlutafjáreign reiknist þannig í 2,5% verðbólgu að fyrst sé 61 m.kr. verðrýrnun hlutafjárins dregin frá arðinum og síðan lagður á 22% skattur á 439 m.kr., sem gera 98 m.kr. Í núverandi kerfi yrðu einfaldlega lagður á 20% skattur á 500 m.kr. arð sem gæfi ríkissjóði 100 m.kr. Það sem virðist vera hækkun er því í raun lækkun. Og mikil vörn fyrir verðbólgu í kjölfar fyrirsjáanlegrar lækkunar gengis á næstu misserum. Hin ríku eru enda alsæl með þessa skattabreytingu. Það hefur ekkert af því fólki kvartað, ekki hálfur maður. Og er þetta fólk þó þaulæft í kvörtunum undan skattahækkunum. Ef það kvartar ekki, þá er ekki verið að hækka skatta. Þannig er það bara.

Hagsmunagæsluflokkar hinna ríku

Ekkert nágrannalanda okkar notar raunávöxtun sem skattstofn við útreikninga á fjármagnstekjuskatti. Í flestum löndum er þessi skattur hærri en á Íslandi. Sum lönd halda meira að segja enn í þá meginreglu, sem var fyrir nýfrjálshyggjutímann, að fjármagnstekjur séu skattlagðar eins og launatekjur. Ef svo væri þyrfti fólkið sem greiddi sér 500 m.kr. arð í dæminu hér að ofan að borga 231 m.kr. í skatt. Fyrir breytingu hafði það fengið 131 m.kr. skattalækkun og við breytingu ríkisstjórnar Katrínar bætast 2 m.kr. við skattalækkun, með kveðju frá hagsmunagæsluflokkum hinna ríku.

Þar borga allir jafnt

Ekkert nágrannalanda okkar notar raunávöxtun sem skattstofn við útreikninga á fjármagnstekjuskatti. Í flestum löndum er þessi skattur hærri en á Íslandi. Sum lönd halda meira að segja enn í þá meginreglu, sem var fyrir nýfrjálshyggjutímann, að fjármagnstekjur séu skattlagðar eins og launatekjur. Ljósmynd: Craig Whitehead.

Í fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að 14 m.kr. króna verði varið í að lækka neðra skattþrepið í tekjuskatti einstaklinga úr 39,94% í 38,94%. Lægra þrepið er lagt á allar tekjur (aðrar en fjármagnstekjur) upp að 893.713 kr. á mánuði. Eftir það leggst 46,24% skattur á þessar tekjur. Þótt mestur tekjumunur sé í fjármagnstekjum eru engin þrep þar og engin persónuafsláttur. Fátæka ekkjan borgar sama skatt af vöxtunum á sparisjóðsbókinni og ríka fólkið sem skrælir fyrirtækin að innan með arðgreiðslum til sín.

Ekki jöfnunaraðgerð

Tillaga ríkisstjórnarinnar lækkar tekjuskatt fólks sem er með 893.713 kr. eða meira á mánuði um 107 þús. kr. á ári en minna hjá öðrum. Fólk á lágmarkslaunum, sem í dag eru 300 þús. kr. á mánuði, fær 36 þús. kr. lækkun á ári. Öryrki með 240 þús. kr. á mánuði fær 29 þús. kr.

En hverjir eru það sem fá fulla lækkun samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar? Miðað við tekjuupplýsingar Hagstofunnar má ætla að það séu um 50 þúsund manns af um 195 þúsund manns á vinnumarkaði, eða rétt rúmlega fjórði hver vinnandi maður. En utan vinnumarkaðar er eftirlaunafólk, öryrkjar, atvinnulausir, námsfólk í hlutastörfum o.s.frv. Þessi 50 þúsund sem fá fulla lækkun tekjuskatts eru um 18,5% fólks á sjálfræðisaldri.

Þetta er því ekki jöfnunaraðgerð, óralangt frá því. Með hækkun persónuafsláttar myndu allir skattborgarar fá sömu lækkun í krónum talið. Með þessari aðgerð fá aðeins 18,5% hinna best stæðu fulla lækkun en allir aðrir skerta lækkun, fátækustu öryrkjarnir og eftirlaunafólkið aðeins um fjórðung af því sem ríkasta fólkið fær.

Með þessari aðgerð fá aðeins 18,5% hinna best stæðu fulla lækkun en allir aðrir skerta lækkun, fátækustu öryrkjarnir og eftirlaunafólkið aðeins um fjórðung af því sem ríkasta fólkið fær.

Meira fyrir karla en konur

Af tekjugreiningu Hagstofunnar má meta hvernig þessi tillaga skiptist milli karla og kvenna. Karlar eru 53,5% fólks á vinnumarkaði en verða 76% þeirra sem fá fulla lækkun tekjuskatts samkvæmt tillögu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ástæðan er að fleiri karlar eru meðal þeirra sem hafa hæstu launin. Þessi aðgerð er því ekki til að jafn hlut kynjanna, þvert á móti til að bæta stöðu karla.

En kynjahlutfallið endurspeglar stéttaskiptingu, þ.e. að fleiri karlar eru í stjórnunarstöðum en konur. Þeir fá meiri lækkun vegna þess að þeir eru líklegri til að vera í hærri stétt á vinnumarkaði en konur. Um 85% stjórnenda munu fá fulla hækkun en aðeins um 2% ósérmenntaðs starfsfólks, 4% skrifstofufólks, 6% þjónustu- og afgreiðslufólks o.s.frv. Þetta er ekki ríkisstjórn hinna lægri launuðu stétta. Þetta er ríkisstjórn hinna betur settu. Og karla.

-gse


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: