Skattagleði Bjarna Benediktssonar
Stjórnmál „Skattar eru allt of háir hér á landi og hafa lítið lækkað frá því að þeir náðu hæstu hæðum í tíð vinstristjórnarinnar á árunum 2009 til 2013,“ segir í Staksteinum dagsins.
Þar er stuðst við það tilefni að framundan er skattadagur hjá einni af endurskoðunarskrifstofum borgarinnar. Sem svo oft áður er deilt hart á ríkjandi stjórnvöld og ekki þarf að lesa milli lína til að sjá að helst er verið að tala til Bjarna Benediktssonar, mestráðandi Íslendinginn undangenginn ár.
„Það er með ólíkindum að landsmenn skuli enn sitja uppi með megnið af skattahækkunum vinstristjórnarinnar þó að nú sitji þriðja ríkisstjórnin frá því að sú skattaglaða var hrakin frá völdum við lítinn orðstír.
Það er þess vegna hætt við að skattadagurinn verði ekki til að stuðla að lækkun skatta, brýnasta verkefninu á sviði skattamála og að minnsta kosti einu því brýnasta á sviði stjórnmálanna.
Vonandi verður tækifærið þó notað til að ræða það sem máli skiptir í sambandi við skattana og þá gæti jafnvel komið að því að skattadagar almennings yrðu ögn bærilegri, en eins og skattlagningu er háttað á Íslandi í dag má segja að allir dagar séu skattadagar.“