- Advertisement -

Skammist ykkar fyrir Þingvelli nútímans

Vesalings Ísland að þurfa að búa með þessari stjórnmálastétt.

Þór Saari skrifar:

Skrapp til Þingvalla í gær og varð hreinlega sorgmæddur að sjá hvernig búið er að fara með þennan fallega og merkilega stað. Hakið, þar sem áður fyrr var svo fallegt útsýni er orðið að gríðarstóru malbikuðu bílastæði og stór hluti svæðisins er þakinn stórum byggingum sem hýsa klósett og stöðumæla. Það voru fleiri WC merki á Hakinu en upplýsingaskilti. Hryllingurinn sem heitir útsýnispallur er allt of stór og búið er að byggja forljóta brú niður í Almannagjá og eyðileggja merkilegustu og fallegustu þjóðleið landsins. Þar og á völlunum fyrir neðan var líka allt útbíað í skiltum um að bannað væri að ganga á grasinu og svo rukkunarskiltum á ensku og íslensku. Eftir stutta samantekt var niðurstaðan að algengasta orðið sem ég sá á öllu svæðinu var enska orðið „Pay“.

Þvílík skömm og heimska að fara svona með þennan stað sem er líklega sá merkilegasti á landinu hvað varðar sögu, menningu og stjórnmál og þau sem bera ábyrgðina á því að leyfa þessu að gerast, Þingvallanefnd (alþingismenn), þjóðgarðsvörðurinn (embættismaður) og svo Alþingi allt, mega skammast sín út í ystu myrkur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það sorglegasta við þetta er þó að þetta er drifið áfram af peningalegum hagsmunum ferðaiðnaðarins sem einhvern vegin hefur komist upp með að ráða ferðinni og lagt allt landið undir starfsemi sína, án endurgjalds. „Sjoppan Þingvellir“ er sorgleg staðreynd og þótt staðurinn heiti formlega þjóðgarður er það í dag bara yfirskin til að selja fleiri ferðamönnum landið. Iss!

Ég ætla bara rétt að vona að eftir Kóvid muni stjórnvöld setja fram áætlun um takmarkanir á fjölda erlendra ferðamanna í þjóðgörðum og öðrum náttúruperlum landsins og líka á landinu öllu og láta rífa þennan hrylling sem er í gangi á Þingvöllum. Vesalings Ísland að þurfa að búa með þessari stjórnmálastétt.

Eina myndin sem ég náði af óbrenglaðri náttúru var 30 kílómetrum norðan þjóðgarðsins af Skjaldbreið. Það formfagra fjall bjargaði deginum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: