- Advertisement -

Skagamenn vilja stærra Norðurál

Forsenda fyrir þessum framkvæmdum er að fyrirtækið nái samkomulagi við ríkisfyrirtækið Landsvirkjun.

„Ég tek svo sannarlega undir þessa áskorun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar á ríkisstjórn Íslands,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

„Bæjarstjórn Akraness skorar á ríkisstjórn Íslands að nýta þetta einstaka tækifæri til þess að fylgja eftir yfirlýsingum sínum um kröftuga viðspyrnu í efnahagslífinu og vilja sínum til að ýta undir fjárfestingar fyrirtækja þegar þær bjóðast með því að lýsa yfir stuðningi við uppbyggingaráform Norðuráls.“

Vilhjálmur: „Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hefur Norðurál á Grundartanga gefið út að innan nokkurra vikna geti fyrirtækið ráðist í stækkun á steypuskála fyrirtækisins.  Forsenda fyrir þessum framkvæmdum er að fyrirtækið nái samkomulagi við ríkisfyrirtækið Landsvirkjun um langtíma raforkusamninga með viðunandi verði fyrir báða samningsaðila.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fram hefur komið að þetta sé fjárfesting sem nemur um 14 milljörðum og myndi tryggja upp undir 100 störf á byggingartímanum og 40 varanleg störf og ekki er vanþörf á í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.

Það er gríðarlega mikilvægt að allir átti sig á því að íslenskt samfélag er rekið áfram með kröftugum gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum.  Það er með gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum sem við rekum t.d., heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæsluna og almannatryggingakerfið svo eitthvað sé nefnt.  Við verðum að framleiða meira og skapa svigrúm fyrir enn frekari sókn gjaldeyrisskapandi atvinnugreina hér á landi, þannig tryggjum við velferð almennings.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: