- Advertisement -

Skagakonur óttast skítalykt

Samfélag „Þurfum við í alvörunni að sætta okkur við það að húseignir í ákveðnum bæjarhluta séu verðfelldar áfram, þótt ekki sé rætt um þá andlegu vansæld sem þessari skítalykt fylgir? Unga fólkið í dag vill ekki búa við þessi skilyrði; þetta er algjör tímaskekkja að okkar mati,“ segir í opnu bréfi sem nokkrar konur af Akranesi skrifa til stjórnenda HB Granda.

Slæmar trakteringar

Tilefnið er fyrirhuguð hausaþurrkun fyrirtækisins á hafnarsvæðin á Akranesi. „Það er gleðiefni, nema að einu undanskildu: Í pakkanum er ætlunin að reisa þurrkunaraðstöðu í um 4.500 fermetra húsnæði fyrir fiskhausa og jafnvel þurrkun á loðnu og er það nokkuð sem sannarlega á ekki að vera nálægt íbúðabyggð. Að minnsta kosti dettur engum lengur í hug að bjóða Reykvíkingum, Seltirningum eða íbúum Mosfellsbæjar upp á slíkar trakteringar. Þar myndi þetta, árið 2015, aldrei verða leyft. Eða hvað haldið þið? Fjárfesting ykkar vegna uppbyggingar hausaþurrkunarinnar er upp á mörg hundruð milljónir króna. Væri ekki skynsamlegra að þeim fjármunum yrði varið á þeim stað sem sátt ríkir um starfsemina, nóg er landrýmið? – segir í bréfi kvennanna.

Þær segja hörmulega reynslu af Laugafiski. „Starfsleyfið rennur út í febrúar á næsta ári og var það von okkar að verksmiðjan yrði flutt fjær íbúðabyggð. Í stað þessa á nú að stækka og auka framleiðsluna, og þar með meira en þrefalda hana, úr 170 tonnum í 600 tonn á viku. „Fyrr má nú rota en dauðrota.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Kirkjan slyppi ekki

Þær segja einnig: „Það sem verra er, að samkvæmt veðurfarsspám, svokölluðum vindrósum sem skilmerkilega eru tíundaðar í skýrslunni, sést að þefurinn mun færa sig á nýjar lendur og er þá kirkjan okkar, sjúkrahúsið og nýja torgið, að ógleymdum Jaðarsbökkum útsett fyrir lyktinni á góðviðrisdögum í hægum sunnanáttum.“

Bréfið endar svona: „Stjórnendur HB Granda! Við skorum á ykkur að finna aðra staðsetningu fyrir hausaþurrkun ykkar, í samráði við bæjaryfirvöld og í sátt og samlyndi við alla bæjarbúa, þar sem framleiðslan hvorki skaðar né angrar íbúa Akraness. Við trúum því og treystum að hentugri staður finnist fyrir þurrkunina sem getur verið hvar sem er í hæfilegri fjarlægð frá íbúðabyggð, ef að er gáð, og við erum tilbúin í þá vinnu með ykkur. Í okkar hópi er bráðsnjallt fólk sem er vant að finna lausnir í erfiðum málum. Verum víðsýn og reynum að læra af reynslunni. Með metnaðarfullum óskum um að fyrirtækið stækki og blómstri á Akranesi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: