Sjokkeruð yfir afstöðu Vinstri grænna
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og annar varaforseti Alþýðusambandsins, skrifar:
Ég mun ekki þreytast á að benda á þessa ótrúlegu staðreynd:
Alþingi, æðsti handhafi löggjafarvalds á Íslandi, hefur undir forystu ríkisstjórnar sem leidd er af fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, en á vefsíðu VG segir m.a. þetta. „Vinstri græn standa með launafólki og stéttarfélögum þeirra í baráttunni fyrir réttindum og bættum kjörum,“ samþykkt lög um ríkisábyrgð upp á 15 milljarða króna vegna flugrekstrarhluta Icelandair Group. Þessi staðreynd er ótrúleg vegna þess að ASÍ, stærsta fjöldahreyfing launafólks á Íslandi, hefur ákveðið að stefna Icelandair fyrir félagsdóm vegna þess augljósa og einbeitta brots er félagið, með hvatingu og dyggum stuðningi frá Samtökum atvinnulífsins, framdi á lögum nr. 80 um stéttarfélög og vinnudeilur, en í þeim segir að atvinnurekendum sé óheimilt að reyna að hafa áhrif á „stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn.“
Hvernig má það vera að æðsti handhafi löggjafarvalds veiti fyrirtæki vernd á sama tíma og fyrirtækið gerist með grafalvarlegum hætti brotlegt við þau lög sem sannarlega gilda á þessu landi? Er það svo að forsætisráðherra og aðrir í ríkisstjórn eru sammála framkvæmdarstjóra SA sem segir líkt og einhver aðalsmaður að vinnulöggjöfin sé úrelt og þess vegna sé ekkert athugavert við að fyrirtæki einfaldlega taki ákvörðun um að fara ekki eftir henni? Er það svo að kenningar sem sannarlega eru úreltar, um rétt eigenda atvinnutækjanna og fjármagnsins til að gera allt sem þeim dettur í hug, eiga, á því herrans ári 2020 þegar heimurinn allur tekst á við úrkynjun kapítalismans og þær hörmungar sem hann hefur leitt yfir mannkyn og náttúru, svona rækilega upp á pallborðið hjá VG, hreyfingunni sem fjöldi fólks kaus sérstaklega vegna áherslunnar á réttlæti og jöfnuð í samfélagi mannfólks?
Ég geri mér grein fyrir því að við erum öll orðin lífsreynd og verðum æ lífsreyndari með hverjum deginum sem líður. En sú staðreynd að þessi atburðarás hafi orðið, og að við séum núna einfaldlega komin á þennan stað í hnignun frjálslynds lýðræðis og hnignun þeirra flokka sem gera greinilega hvað sem er fyrir völd, finnst mér samt ótrúleg. Ég er satt best að segja töluvert sjokkeruð.