Sjöfalda verð á óveiddum fiski
Lagafrumvarp um að viðbótarkvóti verði seldur á markaði. Hörð andstaðan við breytingar. Engir stjórnarþingmenn eða ráðherrar tóku þátt í umræðunni.
Alþingi Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna tókust hart á á Alþingi þegar Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, flutti frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þar er gert ráð fyrir að viðbætur í kvóta fari ekki til þeirra sem nú ráða kvótanum, heldur verði seldar á markaði.
„Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir hafa þurft að greiða stærri útgerðum undanfarið um 170 krónur fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins tæpar 23 krónur í veiðigjald samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu,“ sagði Oddný.
Illt umtal skemmir fyrir
Miðflokksþingmennirnir, Gunnar Bragi Sveinsson formaður þingflokksins og Sigurður Páll Jónsson, svöruðu Oddnýju og voru henni ósammála. Gunnar Bragi sagði:
„Ég er líka ósammála því sem kom fyrir í ræðu þingmannsins að það sé verið að gefa eitthvað. Þeir sem nýta auðlindina eiga ekki fiskinn í sjónum, þeir hafa hins vegar aðgang að honum. Ég vil að þetta komi skýrt fram.“
Sigurður Páll sagði vandann vera illt umtal: „…ég er með þá kenningu og stend fastur á henni að samþjöppunin í greininni sé að stærstum parti út af þessu neikvæða tali um hvað þetta sé vont kerfi. Ég er á þeirri skoðun að það sé pláss fyrir jafnt stóra sem litla í fiskveiðistjórnarkerfinu eins og það er í dag. Tala ég þar af reynslu sem lítill útgerðarmaður.“
Gefum auðlinda fyrir slikk
Oddný talaði um verðmætin: „Hér erum við fulltrúar kosnir á þing til þess að verja hag almennings. Við gerum það ekki með því að halda áfram að gefa frá okkur auðlindina fyrir slikk. Á meðan það er gert molna vegirnir undan okkur. Við kvörtum undan að heilbrigðiskerfið fái ekki næga fjármuni og það séu ekki til nægir fjármunir til þess að halda hér uppi góðri velferð og sterku og öflugu skólakerfi. Við erum rík þjóð, en það er samt þannig ef við horfum bara á sögu landa að í þeim ríkjum sem eru svona drifin áfram af auðlindum er líka hætta á mikilli spillingu. Þar er spillingarhættan mikil. Þar er hættan sú að til valda veljist fólk sem stendur vörð um nokkrar útgerðir, um nokkrar fjölskyldur í landinu og passi upp á þeirra hagsmuni á meðan almenningur líður skort í ýmsum myndum.“
-sme