Til þess þurfum við að svipta stórútgerðirnar völdum yfir öllum þáttum greinarinnar.
Gunnar Smári skrifar:
Auðvitað er umræða um veiðigjöld mikilvæg. En það er rangt að stilla umræðu um sjávarútveginn þannig upp að eina álitamálið sé hversu há þau eru.
Tökum dæmi.
Nú er rætt um lækkun veiðigjalda á tveimur árum úr 11,3 milljörðum 2018 í 4,8 milljarða 2020. Mismunurinn er 6,5 milljarðar.
Löndunarverðmæti sjávarafurða er um 150 milljarðar á ári. Um 30% af aflanum fer á fiskmarkað en um 70% er seldur milli tengdra aðila fram hjá markaði. Til að setja verð á þau viðskipti hefur verið samið um að setja verðlagsráðsverð, sem sé 25% lægra en verð á fiskmörkuðum. Þetta merkir að ef löndunarverðmætin voru 150 milljarðar þá hefur afsláttur á 70% viðskiptanna verið tæplega 32 milljarðar króna.
Þetta er fyrst og fremst afsláttur til stærstu útgerðanna, sem eiga fiskvinnslu og sölufyrirtæki miklu fremur en smáar útgerðir. Þessar útgerðir, eða fiskvinnsla og sölufyrirtæki á þeirra vegum, njóta þess að fá hráefnið með 25% afslætti og standa því betur að vígi í samkeppni við fiskvinnslur og sölufyrirtæki sem ekki eiga kvóta útgerð. Ofan á sterka stöðu hinna stærri á markaði kemur því enn frekari samkeppnisskekkja vegna þess hversu sterk tök hin stóru útgerðarfyrirtæki hafa á öllu kerfinu.
Ef stór útgerð og smá fiskvinnsla selja afurðir sínar á sama verði en litla fiskvinnslan borgaði 33% hærra verð fyrir hráefnið, og ef við gerum ráð fyrir að hráefniskostnaður sé um 1/2 af heildarkostnaðinum þá fær stóra útgerðin 12,5 m.kr. hagnað af hverjum 100 m.kr. seldum á meðan litla fiskvinnslan er rekin á núlli. Ef stóra útgerðin kýs að selja sínar afurðir á núlli þá dettur litla fiskvinnslan í 12,5 m.kr. tap.
Dæmin eru þó ekki svona, þetta er ímyndað dæmi til að sýna fram á samkeppnisskekkjuna. Reyndin er sú að smærri fiskvinnslur ná yfirleitt hærra verði í gegnum betri sérhæfingu og nýtingu en stór útgerðin nær með sinni vinnslu. Á meðan smærri fiskvinnslan verður að ná hámarksárangri til að lifa er nægt svigrúm fyrir lélegan árangur hjá hinum stærri útgerðum. Þar er aðal fókusinn á að halda spara launakostnað með því að flytja vinnsluna út á sjó eða aftur í land eftir því hvað er hagkvæmara hverju sinni, miklu fremur en að hámarka endanlegt verð.
En aftur að 32 milljarða afslættinum. Hann sviptir sjómenn sínum hlut af þessum verðmætum. Þar sem útgerðarmönnum hefur tekist að draga allskyns liði frá skiptum þá koma aðeins 72,5% af þessari upphæð til skipta og sjómenn fá af því um 30,5%. Það gera rúmir 7 milljarðar króna. Það er hærri upphæð en sem nemur lækkun veiðigjalda undanfarin ár, tekjutap sjómanna vegna afsláttar á verði í viðskiptum utan fiskmarkaða.
Ef við reiknum með að þetta séu tekjur sem lenda í hæsta skattþrepi þá tapar ríkissjóður af þessu hátt í 3,3 milljarða króna vegna missi tekjuskatts.
Hafnargjöld eru um 1,27% af verðmæti landaðs afla. Tap hafna vegna þessa afsláttar stærstu útgerðanna frá markaðsverði er því rúmlega 400 m.kr.
Og þannig má halda áfram að týna til beint og óbeint tap samfélagsins af þessum afslætti, hvernig hann skerðir laun sjómanna, lækkar skatttekjur, skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja, leiðir til sóunar og lakara afurðaverðs, sem aftur skerðir tekjur samfélagsins.
Það er ekki svo að sjávarútvegurinn sé frábær og eina vandamál hans sé að útgerðin borgi ekki nóg fyrir aðgengi að auðlindunum. Sem hún gerir ekki, hún borgar alltof alltof lágt gjald. En sjávarútvegurinn er ramm spillt kerfi sem ekki verður læknað með því einu að hækka veiðigjöldin. Að óbreyttu munu hærri veiðigjöld ýta undir enn frekari samþjöppun og færa auðlinda undir færri, auka enn völd hinna stærstu og sveigja allar reglur og viðmið að þörfum þeirra.
Við þurfum að horfast í augu við að það þarf að stokka upp allt kerfið og tryggja að sjávarútvegurinn sé rekin í sátt við samfélagið og náttúruna og að arðurinn af auðlindunum hríslist um samfélagið allt en endi ekki að mestu í vasa örfárra. Til þess þurfum við að svipta stórútgerðirnar völdum yfir öllum þáttum greinarinnar.