„Eiginfjárstaða íslensks sjávarútvegs hefur styrkst með hverju árinu frá hruni og hefur hún aldrei mælst sterkari,“ segir í Hagsjá Landsbankans.
Þar segir einnig að eiginfjárhlutfall íslensks sjávarútvegs hafi numið 42,2% í árslok 2016. „Þetta er hæsta hlutfall sem mælst hefur frá því Hagstofan hóf að safna gögnum um rekstrartölur sjávarútvegsins árið 1997. Á árunum 1997 til 2007 var eiginfjárhlutfallið fremur stöðugt eða á bilinu 24 til 31%. Árið 2008 urðu hins vegar mikil umskipti vegna mikillar veikingar krónunnar og varð eiginfjárhlutfallið þá neikvætt um 18%. Þessi mikla breyting skýrist af því að íslenskur sjávarútvegur hefur lengi vel verið að mestu leyti fjármagnaður í erlendri mynt enda eru tekjur greinarinnar að mestu leyti í erlendum myntum. Síðan 2008 hefur leiðin legið stöðugt upp á við,“ segir í Hagsjánni.
Heildarskuldir sjávarútvegsins urðu mestar árið 2008 þegar þær námu 403 ma. kr. en þær voru síðan komnar niður í 250 ma. kr. í lok árs 2016. Skuldirnar höfðu þannig lækkað um 153 ma. kr. á þessu tímabili. Skuldirnar eru að langmestu leyti í erlendri mynt. Ef skuldirnar hefðu einungis breyst í samræmi við breytingar á gengi krónunnar milli áranna 2008 og 2016 ættu skuldirnar að hafa verið 301 ma. kr. en ekki 250 ma. kr í árslok 2016. Mismunurinn þarna á milli liggur nettó uppgreiðslu skulda á þessu tímabili. Bæði uppgreiðslu af höfuðstól en einnig vegna samningsbundinna afborgana af lánum.
Ríkisstjórnin undir forgöngu Lilju Rafneyjar Magnúsdóttir, Vinstri grænum, vinnur að lækkun veiðigjalda, vegna stöðu sjávarútvegsins, að sagt er.