Fréttir

Sjávarorka tuttugu sinnum dýrari

By Miðjan

May 13, 2015

Virkjanir „Helstu niðurstöður eru þær að gróft reiknað þá er kostnaður við virkjun sjávarorku nú um 20 sinnum hærri en við hefðbundna vatnsaflsvirkjun,“ segir í skýrslu um mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku.

Mikil framþróun er í rannsóknum á beislun sjávarorku og má reikna með að á næstu 30 árum verði miklar framfarir.“ Fyrirsjáanlegt er því að kostnaður við virkjun sjávarorku mun fara lækkandi samhliða því að spár gera ráð fyrir að orkuverð muni hækka. Má því reikna með að virkjun sjávarorku geti orðið hagkvæmur kostur um eða eftir miðja öldina.“

Fyrir réttu ári samþykkti Alþingi þingsályktun þar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra var falið að leggja mat á umfang og nýtingarmöguleika sjávarorku við strendur Íslands. Á grundvelli þess var skipaður sjö manna sérfræðingahópur og hefur hann nú skilað greinargerð sinni og kynnti ráðherra hana á fundi ríkisstjórnar í morgun og mun hún í kjölfarið verða lögð fram á Alþingi. 

Nefndin leggur til að Orkustofnun verði falið að varðveita í gagnagrunni upplýsingar um sjávarorku og hugað verði að löggjöf um nýtingu sjávarorku, vindorku á hafi og jarðvarma á hafsbotni.