Sjálfstæðismenn vilja þétta raðirnar
Stjórnmál
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra skrifaði á Facebook:
„Þéttum raðirnar!
Það skiptir máli að það sé gaman í stjórnmálum og það var svo sannarlega gaman er yfir 200 sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi komu saman síðasta laugardag.
Fundurinn bar yfirskriftina „Þéttum raðirnar“ því það veitir svo sannarlega ekki af. Við erum með fólkið, stefnuna og gildin á hreinu. Ákallið frá grasrótinni er skýrt: Að við berjumst af enn meiri krafti fyrir venjulegt fólk á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar.
Það er ljóst að það verður fjör í pólitíkinni í vetur og miðað við þennan viðburð er ljóst að það verður gaman að starfa með fólkinu okkar í vetur.“
Við erum eflaust nokkuð mörg sem þykir þversögn, og jafnvel pólitískur ómöguleiki, í þessum orðum Guðrúnar: „Að við berjumst af enn meiri krafti fyrir venjulegt fólk á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar.“
Víst er að kosningabaráttan er að hefjast. Í morgun tilkynnti Óli Björn Kárason að hann geti ekki stutt ríkisstjórn þar sem Vinstri græn eiga sæti í ríkisstjórn. Eflaust kemur nú margt nýtt daglega sem stækkar gjárnar sem þegar hafa myndast í stjórnarsamstarfinu.