Sjálfstæðismenn passa svo upp á það á Alþingi og í ríkisstjórn að allt sukkið, svínaríið og spillingin í sjávarútveginum fái þrifist.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Sukkið, svínaríið og spillingin í kringum stórútgerðina á Íslandi er svo samofin Sjálfstæðisflokknum að vart má sjá hvor ber á ábyrgð á hverju. Hver haldið þið til dæmis að sé varaformaður atvinnuveganefndar (sem fer með sjávarútvegsmál) Sjálfstæðisflokksins? Nú það er Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri og eigandi útgerðarinnar sem hélt bráðveikum Covid sjúklingum föngnum um borð í Júlíusi Geirmundssyni. Og hver haldi þið að hafi skrifað upp á sáttmála um nýja samfélagsstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, þar sem lofað er bót í betrun og aukinni samfélagslegri ábyrgð í starfsemi útgerðanna? Nú þessi sami Einar Valur Kristjánsson sem var ekki fyrr búinn að skrifa undir en þessi hroðalega framkoma við skipverjanna varð uppvís. Og svo tvinnast þetta allt saman í Morgunblaðinu, því útgerð Einars Vals, Hraðfrystihúsið Gunnvör, er á meðal eiganda Morgunblaðsins, fjölmiðils sem rekinn er með botnlausu tapi ár eftir ár til þess að halda úti áróðri sem er stórútgerðinni þóknanlegur. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eiga Morgunblaði að mestu hluta og þar halda voldugir Sjálfstæðismenn um stjórnartauma og ritstýra því með Davíð Oddsson í broddi fylkingar. Sjálfstæðismenn passa svo upp á það á Alþingi og í ríkisstjórn að allt sukkið, svínaríið og spillingin í sjávarútveginum fái þrifist.