Fréttir

Sjálfstæðismenn ósáttir með Dag á drossíunni

By Miðjan

July 25, 2014

Stjórnsýsla Sjálfstæðismenn í borgarráði eru ekki sáttir með hvaða aðgang Dagur B. Eggertsson hafði, sem staðgengill borgarstjóra á liðnu kjörtímabili, að bíl borgarstjóra. Fyrirspurn um það var lögð fram í borgarráði í gær. Sjálfstæðismenn bókuðu:

„Af svarinu má þó ráða að einn borgarfulltrúi hafi notið bílafríðinda umfram aðra í verulegum mæli. Í svarinu kemur fram að annars vegar hafi borgarfulltrúinn haft afnot af bíl borgarstjóra þegar hann gegndi starfskyldum svokallaðs staðgengils hans og stöku sinnum í ,,opinberum erindagjörðum“ á vegum Reykjavíkurborgar eins og segir í svarinu án þess að það sé skilgreint nánar, en með því hlýtur að vera átt við erindisrekstur sem fellur utan starfsviðs svokallaðs staðgengils. Hins vegar hafi borgarfulltrúanum staðið til boða afnot af tveimur öðrum bifreiðum til slíkra erindagjörða. Ljóst er að umræddur borgarfulltrúi hefur notið bílafríðinda hjá borginni umfram aðra borgarfulltrúa án þess að formleg ákvörðun hafi verið tekin um það á þar til bærum vettvangi, þ.e. í forsætisnefnd. Margir aðrir borgarfulltrúar eru mikið á ferðinni í opinberum erindagjörðum án þess að þeim standi til boða afnot af bifreiðum borgarinnar eins og gerst hefur í þessu tilviki. Brýnt er að skýrar reglur gildi um bílafríðindi kjörinna fulltrúa er og að komið verði í veg fyrir notkun þeirra á bifreiðum Reykjavíkurborgar án þess að skýr heimild liggi fyrir um slíkt.“