„Sjálfstæðisflokkurinn fékk skell í síðustu kosningum vegna þess að Þorsteinn Pálsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Benedikt Jóhannesson og fleiri ESB-sinnar fengu forystu hans til að ganga gegn skýrum ályktunum landsfundar um Icesave.“
Þetta er hluti skilaboða sem Davíð Oddsson sendir flokkssystkinum sínum í Staksteinum Moggans. Síðustu vendingar í Evrópusambandsmálinu skaðar Sjálfstæðisflokkinn, og það mikið. Átakalínurnar eru augljósar.
Af viðtölum við flokksfólk er augljóst að himinn og haf ber á milli viðhorfa. Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kallaði þá svartstakka sem berjast hvað harðast gegn að kosið verði um áframhald viðræðnanna dýpkuðu sárin sem Þorsteinn Pálsson veitti þegar hann sagði Bjarna Benediktsson vera að svíkja meira en áður hefði þekkst í stjórnmálasögu þjóðarinnar.
Sá hluti flokksins sem hefur Morgunblaðið notar þann vettvang óspart.
Halldór Blöndal, fyrrum áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu:
„Þorsteinn Pálsson segir, að það hafi verið kosningasvik hjá Sjálfstæðisflokknum að leggja það fyrir Alþingi að aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði slitið. Þetta veit hann að er rangt. Síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins lagði einmitt svo fyrir, að það yrði gert. Fundinn sátu hátt í 1.400 manns. Og sem gamall formaður Sjálfstæðisflokksins veit Þorsteinn að grannt er gengið eftir því, að flokksforystan fylgi samþykktum flokksins eftir í umdeildum málum. Eða hvað hefðu sjálfstæðismenn sagt, ef Bjarni Benediktsson hefði gert hið gagnstæða? Hefði það verið í samræmi við stefnu flokksins að taka aðildarviðræður upp að nýju? Nei, vitaskuld ekki. Það vitum við öll jafnvel, Þorsteinn, Þorgerður Katrín og ég. Í ályktuninni stendur: „Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Ekki fer á milli mála að flokkurinn á bágt. Núverandi þingmaður sagði, í samtali, að flokkurinn liggi vel við höggi og þess megi vænta að andstæðingar hans nýti sér aðstæðurnar einsog þeir best geta. Annar áhrifamaður sagði fáa menn en háværa ekki skilja stöðu flokksins. Hann liggi vel við höggi og erfitt sé að sjá hvernig hann losnar út úr vandanum.