Stjórnmál

Sjálfstæðisflokkurinn vill eftirlit með borgurum en Píratar með stjórnvöldum

By Miðjan

March 29, 2024

Alþingi „Ég átta mig vel á því að háttvirtur þingmaður Sjálfstæðisflokksins skilji ekki sjónarmið Pírata í þessu enda er háttvirtur þingmaður ekki í Pírötum, hann er í Sjálfstæðisflokknum og eftir því sem maður kemst næst er áhugi Sjálfstæðismanna almennt séð á því að hafa eftirlit með borgurum landsins á meðan Píratar vilja hafa eftirlit til að fylgjast með valdhöfum, þeim sem hafa valdið og beita valdinu á sérstaklega ómálefnalegan hátt. Svoleiðis er okkar hvati til þess að réttarríkið virki, að valdhafar komist ekki upp með það að misbeita valdi sínu,“ sagði Björn Leví Gunnarsson Pírati þegar hann fann að ræðu Birgis Þórarinssonar Sjálfstæðisflokki.

En hvað sagði Birgir um Pírata:

„Ég verð, frú forseti, að mótmæla því sem hefur komið fram hér í stóryrðum Pírata þegar þeir segja að hér sé verið að svipta borgarana friðhelgi og þetta frumvarp sé gegndarlaus vanvirðing. Ég segi bara, frú forseti, að ég skil ekki á hvaða vegferð Píratar eru í þessu máli. Þeir vilja kannski ekki búa í réttarríki. Það er kannski kjarni málsins hjá þeim.“