Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, skrifar í Mogga dagsins. Hún segir þar að eftir að hún fór úr dómsmálaráðuneytinu hafi mál hælisleitenda farið á versta veg. Ekki síst vegna fólks frá Venesúela.
Sigríður bendir á tímamót í málinu. Telur að allt hafi verið með besta móti meðan hún sat í dómsmálaráðuneytinu. Síðan hafi allt farið á versta veg.
„Seinni hluta ársins 2019 varð veruleg breyting á þegar 149 umsóknir bárust frá júlí til september það ár. Frá 2019 hefur þannig legið fyrir að í óefni stefndi. Ekkert virðist hafa verið aðhafst til að stemma stigu við þróuninni. Stuttu síðar var landinu nánast lokað í nafni sóttvarna. Þrátt fyrir lítil umsvif á vettvangi stjórnsýslu og stjórnmála næstu tvö árin á eftir var sá tími ekki heldur notaður til þess að grípa til aðgerða vegna fólksfjöldans frá Venesúela sem hafði ekki alveg stöðvast á tímanum þótt landið væri lokað flestum öðrum í lögmætri för.“
Sigríður lét einmitt af störfum sem dómsmálaráðherra um mitt ár 2019. Við tóku Þórdís K.R. Gylfadóttir, svo Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þá Jón Gunnarsson og svo Guðrún Hafsteinsdóttir. Öll úr Sjálfstæðisflokki. Reyndar hefur flokkurinn farið með dómsmálaráðuneytið nánast samfellt síðustu áratugi.
Sigríður Á. Andersen: „Það sem af er þessu ári og á síðasta ári eru hælisleitendur frá Venesúela yfir 2.200. Þeir skáka jafnvel Úkraínumönnum það sem af er þessu ári sem fá þó hér dvalar- og atvinnuleyfi nánast skilyrðislaust.“
Sigríður kemur víðar við:
„Fyrir utan samninga félagsmálaráðherra við nánast gjaldþrota sveitarfélög um þjónustu við brot af þeim hælisleitendum sem hér eru staddir, hvað nákvæmlega sér ríkisstjórnin fyrir sér í þessum efnum næstu misserin? Fyrirheit um flóttamannabúðir leysa ekki vandann heldur mögulega þvert á móti geta flóttamannabúðir virkað sem segull á þá sem hafa einsett sér að misnota alþjóðlega sátt um aðstoð við stríðshrjáða.“
Endum á þessu: „Framlagning daufra lagabreytinga undanfarin ár var ekki af hálfu Alþingis heldur ráðherra. Andstaðan við jafnvel útþynnt frumvörp ráðherra var af hálfu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna. Andstaða stjórnarandstæðinga skiptir litlu máli. Aðgerðarleysi til þriggja ára í málefnum Venesúela er af hálfu ríkisstjórnar en ekki Alþingis. Komi hún ekki nauðsynlegum málum í gegnum Alþingi í krafti síns þingmeirihluta er við hana sjálfa að sakast.“