Marinó G. Njálsson skrifaði:
Ég tek eftir því, að hinir ýmsu álitsgjafar og stjórnmálaskýrendur kalla gjarnan stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG sem vinstri stjórn. Er þetta þrátt fyrir að slagsíða stjórnarinnar bæði í þingmönnum og ráðherrum hafi verið hægra megin við hina íslensku skiptingu stjórnmálaafla. Er það miðað við að þingmönnum og ráðherrum Framsóknar sé hlaðið á miðjuna.
Jafnvel þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala um að síðasta stjórn hafi verið vinstri stjórn og nota þá greiningu til að skýra út slakt gengi flokksins í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn hafi orðið undir í slagnum við VG sem á móti kvaðst hafa orðið undir í slagnum við VG!
Í mínum huga, var síðasta ríkisstjórn „út og suður“ ríkisstjórn. Hún var málefnalega mjög sundurleit og var hver höndin upp á móti annarri til að tryggja að „hinn“ aðilinn gæti ekki fagnað niðurstöðu í umdeildum málefnum. Þetta gekk fyrra kjörtímabilið, vegna þess að VG og Sjálfstæðisflokkur voru í einhverri gleðivímu yfir að vera saman í stjórn. Heimsfaraldurinn bjargaði síðan hlutunum áður en reyndi á ágreiningsmálin og var höfuðástæðan fyrir því að flokkarnir fengu ekki skell í kosningunum 2021. Þau þrjú höfðu eitthvað að státa sig af, sem breiddi síðan yfir raunar hve lítið sameiginlegt, a.m.k., VG og Sjálfstæðisflokkurinn áttu.
Á síðara kjörtímabilinu varð ríkisstjórnin hins vegar að taka á erfiðum málum. Stjórnarsamstarfið byrjaði ekki vel, þegar um fjórðungur þingmanna Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir andstöðu við stjórnarsáttmálann og þegar leið á kjörtímabilið, kom í ljós að 70 blaðsíðna stjórnarsáttmáli var of langt skjal fyrir þingmenn að lesa. Bæði Sjálfstæðisflokkur og VG ákváðu að standa með „sínum“ málum, burt séð frá hvað stóð í stjórnarsáttmálanum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðust síðan gegn málum, sem þó voru tilgreind í sáttmálanum. Greinilegt var, að samstarfið hafði verið byggt á draumi um að þverpólitísk stjórnun landsins gæti gengið án þess að árekstrar yrðu á milli stefnumála flokkanna.
Nýliðið ár var síðan ár árekstranna, þar sem varla var lagt fram mál á þingi eða ákvörðun tekin af ráðherra án þess að stjórnarþingmenn og jafnvel ráðherra færu í hár saman. Katrín hafði verið línudansarinn með jafnvægisslána, en hún sá sína sæng útbreidda og flúði sökkvandi skipið. (Já, ég veit að hún hefur sagt að það hafi verið tækifæri lífs síns, að fara úr því að vera valdamesta kona landsins í táknrænt en valdalaust embætti.) Nýr línudansari hafði engan áhuga á að halda ríkisstjórninni saman, enda hefur honum ekki verið til lista lagt að vera maður sátta eða málamiðlana.
„My way or no way!“ eru orð sem gjarnan hafa verið tengd við stjórnmálamanninn Bjarna Benediktsson. Kannski gott að vera staðfastur sem fjármálaráðherra, en sem forsætisráðherra þá gekk það ekki. Hugsanlega var hann orðinn þreyttur á samstarfinu og að halda því áfram eftir að Katrín stökk frá borði var mögulega röng ákvörðun. Þarna var tækifæri til skaðaminnkunar.
Að fara með Sjálfstæðisflokkinn úr 36,6% fylgi í kosningunum árið 2007 niður í 19,4% fylgi í kosningunum í lok nóvember sl. er afleitt. Vissulega varð eitt lítið hrun í millitíðinni, en í kosningunum 2013 var fylgið 26,7% og 29,0% árið 2016. En þá fór að halla undan fæti. Féll í 25,2% árið 2017, 24,4% árið 2021 og endaði í 19,4% núna í haust eða rétt um 2/3 af fylginu árið 2016 og 53% af fylginu árið 2007.
Þetta verður önnur af tveimur helstu arfleiðum Bjarna Benediktssonar sem formanns Sjálfstæðisflokksins. Þ.e. að gera kjósendur afhuga flokknum. Hann tók vissulega við erfiðu búi 29. mars 2009 og fylgið í kosningunum um vorið féll niður í 23,7%. Eftirmálar hrunsins opinberuðu alls konar vafninga sem þingmaðurinn, Bjarni Benediktsson, hafði losað sig úr með áhugaverðum hætti. Eftir kosningarnar 2013 myndaði hann ríkisstjórn með Framsókn, en sú stjórn sprakk, þegar í ljós kom að báðir formenn stjórnarflokkanna voru í Panamaskjölunum. Annar tók höggið, en hinn hristi sig eins og gæs sem skvett er á vatni. Ný ríkisstjórn var mynduð eftir kosningar, þar sem kjósendum fannst það flott, að formaður Sjálfstæðisflokksins, sem jafnframt var fjármálaráðherra og hafði alist upp sem þátttakandi í fjárfestingum föðurs síns, vissi ekki hvar peningarnir sínir voru geymdir. Ríkisstjórnin lifði í 8 mánuði og fimm daga. Hún sprakk, þegar enn féll kusk á hvítflibba formanns Sjálfstæðisflokksins.
Ég man þegar alnafni og náfrændi núverandi formanns var formaður Sjálfstæðisflokksins. Síðan tók Jóhann Hafstein við í rúm 3 ár, þá Geir Hallgrímsson í 10 ár, Þorsteinn Pálsson í rúmlega 7 ár, Davíð Oddsson í 14,5 ár og Geir H. Haarde 3,5 ár. Enginn þessara manna, svo ég muni eftir, var með valdatíð markaða svona málum, eins og núverandi formaður. Förum lengra aftur og fyrir utan Bjarna Benediktssons, eldri, þá eru það Ólafur Thors og Jón Þorláksson. Þetta voru kannski ekki fullkomlega flekklausir menn, en enginn þeirra hefði staðið af sér þau mál, sem núverandi formaður hristi af sér.
Að Bjarni Benediktsson, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi náð að vera formaður með hrapandi fylgi í 15 ár, segir kannski meira um hve veikur Sjálfstæðisflokkurinn er en hve sterk staða Bjarna innan flokksins hefur verið. Hann hefur verið umdeildur innan flokksins, eins og sést á því, að hann var ekki að fá „rússneska kosningar“ til formanns. Innan flokksins hefur ekki verið neinn afgerandi foringi á borð við Jón Þorláksson, Ólaf Thors, Bjarna Ben, eldri, Geir Hallgrímsson eða Davíð Oddsson. Hann hefur ekki náð að sætta ólík öfl og í valdatíð hans klofnaði Viðreisn frá flokknum. Þá fór fólk úr flokknum, sem fannst sem ekki væri á það hlustað.
Gleymum því svo ekki, að eftir kosningar 2009, um það leyti þegar Bjarni tók við formannsembættinu, þá var bara einn flokkur hægra megin við miðju í íslenskum stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn var án samkeppni á hægri vængnum bæði í kosningunum 2009 og 2013. Í síðustu kosningum voru flokkarnir 4 til 5 (þá tel ég Sjálfstæðisflokk, Miðflokk, Viðreisn, Lýðræðisflokkinn og að hluta Flokk fólksins hægra megin við miðju). Greinilegt, að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur flokkur fyrir ólík sjónarmið, og þar gildir: „Ef þú ert ekki sammála, þá viljum við ekkert með þig hafa að gera.“
Aftur að upphafi færslunnar. Síðasta ríkisstjórn sprakk ekki vegna þess að hún var vinstri stjórn eða hægri stjórn. Hún sprakk vegna ósamlindi þeirra sem að henni stóðu. Vegna þess, að bæði Sjálfstæðisflokkur og VG voru að sjá af skoðanakönnunum, að fylgi flokkanna var að hrynja og flokksmenn voru óánægðir með að sjá stefnumál flokkanna sífellt verða undir. Vegna þess, að ráðherrar voru einráðir í skoðunum sínum og aðgerðum, eins og þeir væru valda hinum flokkunum sem mestum skaða.
Seinni afleifð Bjarna Banediktssonar, að mínu mati, verður síðan að hafa verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 15 ár en aðeins forsætisráðherra í 19 mánuði (af þeim voru 4 í starfsstjórnum). Af formönnum Sjálfstæðisflokksins hafa Jóhann Hafstein og Þorsteinn Pálsson einir setið skemur sem forsætisráðherra. Jóhann í 1 ár (af 3 árum og 3 mánuðum sem formaður) og Þorsteinn í 14 mánuði og 20 daga (7 árum og 4 mánuðum sem formaður). Það verður seint talist til afreka hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að vera hornkerling í ríkisstjórn.