Stjórnmál / „Dómsmálaráðherrann veit hvernig landsfundur greiddi atkvæði um hugðarefni hennar á síðasta fundi. Taki flokkurinn sér ekki tak tökum við hatt okkar og staf ef við neyðumst til þess.“
Hér eru ekki töluð nein tæpitunga. „Sjálfstæðisflokkurinn skyldi ekki ganga að meginhluta flokksmanna sem vísum.“ Það er Einar S. Hálfdánarson sem skrifar svo í Moggann í dag.
Hann skýrir mál sitt og varar við og skrifar: „Íhaldsflokkur Danmerkur breyttist frá því að vera stór flokkur í smáflokk á skömmum tíma. Við sjálfstæðismenn og -konur erum ekki að kjósa okkar flokk til að þóknast Loga, Helgu Völu og Rósu Björk. Þeir sem vilja alíslenska stefnu í andstöðu við önnur Evrópuríki og m.a.s. í andstöðu við jafnaðarmenn í Evrópu kjósa Samfylkingu.“
En hvað er það er sem leggst svo illa í Einar? Jú, mál innflytjenda.
„Um 45 manns eru nú í sóttkví í Sóttvarnarhúsinu á Rauðarárstíg. Húsið er nær fullt að sögn umsjónarmanns þess. Fólkið í sóttkvínni er allt umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ekki er hægt að ásaka þessa umsækjendur. Þau eru að gera sitt besta til að komast til lands sem sér þeim fyrir bærilegum lífskjörum, frábærum á þeirra mælikvarða. Nei, hér er einvörðungu við dómsmálaráðuneytið að sakast. Stjórnlaus ólöglegur innflutningur fólks hefur verið staðreynd frá árinu 2016. Árleg bein og óbein útgjöld vegna svonefndra hælisleitenda nema líklega 10 milljörðum króna og fara vaxandi.“
Næst kemur eitruð sneið: „Hvaða stjórnmálaflokkur hefur farið með málefni innflytjenda frá árinu 2016? Af óstjórninni að dæma skyldi maður ætla að það væri Samfylking. En Sigríður Andersen náði ekki einu sinni árangri þrátt fyrir góð áform. Séð var til þess og henni síðan rutt úr embætti.“