„Það er ekki vanþakklæti kjósenda að snúa baki við Sjálfstæðisflokknum, heldur eru væntingar ekki uppfylltar,“ skrifar fyrrum þingmaður Valhallarflokksins, Vilhjálmur Bjarnason, í Moggann í dag. Grein hans er með ágætum. Hann rýnir í stöðu flokksins síns og hér á eftir fara valdir kaflar úr grein Villa Bjarna.
„Til hvers í ósköpunum þurfti Sjálfstæðisflokkurinn að vera þátttakandi í því að styðja afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu? Vissulega var enginn möguleiki á því að umræða um aðildarumsókn kæmist á dagskrá Alþingis. Sofandi aðildarumsókn gerði ekkert mein. Afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu skapaði grundvöll fyrir Viðreisn. Frumkvæði að afturköllun kom frá þeim er síðar urðu Klausturmunkar Miðflokksins.“
Merkilegt ef rétt er. Varð eltingaleikur Sjálfstæðisflokksins við Framsókn til þess að kljúfa Valhallarflokkinn?
Svo fær Eyþór Arnalds á baukinn:
„Þegar loksins tekst að berja saman yfirlit um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í uppbyggingu innviða, en það svæði hefur setið á hakanum svo árum skiptir, þá er það svo að sveitarfélög utan Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu standa saman, en Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er sér á parti. Vissulega er gjaldtaka óútfærð en það er mikilvægt að standa saman í þessu verkefni. Er nú ekki lágmark að félagar í Sjálfstæðisflokknum standi saman yfir landamæri bæjarfélaga?“
Vilhjálmur er ekki einn til að finna að samgönguáætlun Moggans sem Eyþór er boðberi fyrir og mun eflaust skaða Eyþór meir en nokkuð annað.
Vilhjálmur víkur að óánægju í grein sinni:
„Vandamál í samgöngum skapa óánægju. Greiðar samgöngur skapa ánægju.
Það er hægt að kortleggja óánægju. Óánægju má lægja með réttmætum væntingum og aðgerðum. Það er óásættanlegt að það skuli vera mánaða bið eftir liðskiptaaðgerðum. Líkamlegar kvalir valda óánægju.
Hvernig hafa greiðslur almannatrygginga þróast miðað við breytingar á lægstu launum? Lægstu laun hafa hækkað langt umfram almenna launaþróun. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hafa forystu um að vera sífellt á verði um kjör þeirra sem eru alfarið háðir greiðslum frá almannatryggingakerfi.“
Vilhjálmur gerir bjölluat í hreiðri þingmanna flokksins, þar sem hver og einn getur sofið eins og honum sýnist:
„Níutíu ára Sjálfstæðisflokkur á ekki í vændum eilífan aldur ef afmælið gengur fyrst og fremst út á að bjóða forystumönnum annarra flokka upp á brauð og tertu. Darwin talar um aðlögun. Er Sjálfstæðisflokkurinn aðlaðandi eða aflaðandi? Hvernig standa kynningarmál Sjálfstæðisflokksins? Hver er sýnileiki þingmanna Sjálfstæðisflokksins á menningarviðburðum? Þingmenn flokksins eru mestan part ósýnilegir.
Það er svo að aðeins örfáir vita hverjir eru alþingismenn Sjálfstæðisflokksins nú um stund. Þeir þurfa að spyrna í botninn. Eða er betra að hafa þá í kafi áfram?“
Bent er á að það styttist til kosninga:
„Það eru innan við tvö ár til næstu kosninga. Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða upp á annað en vín í búðir? Það er af nægu að taka. Styrkleiki flokksins felst ekki í því að bjóða upp á fleiri vínfrumvörp eða náttúrupassa. Það er enginn vínskortur í landinu.“