- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn og hinar óþægilegu hugsanir

Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður skrifaði þingnefnd bréf vegna dómarakapals Sigríðar  dómsmálaráðherra. Í bréfinu segir á einum stað: „Urðu vina- og pólitísk tengsl til þess að aðrir voru teknir inn í þeirra stað o.s.frv. Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt.“

Óhjákvæmilegt segir hæstaréttarlögmaðurinn. Trúlega er hann alls ekki einn um að finna fyrir þessum hugsunum. Bara örugglega ekki. Svo vill til að í dag, já þennan föstudag, er ekki bara dómarakapallinn sem þröngvar þannig hugsunum í höfuð fólks, með góðu eða illu.

Í frétt 365 segir: „Fjármálaráðuneytið keypti sérfræðiráðgjöf af lögmannsstofunni Juris fyrir 107 milljónir á árunum 2013-15 án þess að samningur væri gerður.“

Það var Ríkisendurskoðun sem fann lyktina og fann raunveruleikann. Bjarni þó. Svona gera menn ekki, eða gera þeir það bara.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Juris er ekki bara einhver lögmannsstofa. Ó, nei. Í eigendahópi stofunnar eru til dæmis þrír frambjóðendur og jafnvel trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Lárus Blöndal, Vífill Harðarson og Sigurbjörn Magnússon.

Jæja, já. Það er bara svona. Kemur kannski ekkert á óvart, eða hvað? Nú er tekið undir með Jóhannesi Karli þar sem hann segir:  „Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt.“

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: