Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður skrifaði þingnefnd bréf vegna dómarakapals Sigríðar dómsmálaráðherra. Í bréfinu segir á einum stað: „Urðu vina- og pólitísk tengsl til þess að aðrir voru teknir inn í þeirra stað o.s.frv. Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt.“
Óhjákvæmilegt segir hæstaréttarlögmaðurinn. Trúlega er hann alls ekki einn um að finna fyrir þessum hugsunum. Bara örugglega ekki. Svo vill til að í dag, já þennan föstudag, er ekki bara dómarakapallinn sem þröngvar þannig hugsunum í höfuð fólks, með góðu eða illu.
Í frétt 365 segir: „Fjármálaráðuneytið keypti sérfræðiráðgjöf af lögmannsstofunni Juris fyrir 107 milljónir á árunum 2013-15 án þess að samningur væri gerður.“
Það var Ríkisendurskoðun sem fann lyktina og fann raunveruleikann. Bjarni þó. Svona gera menn ekki, eða gera þeir það bara.
Juris er ekki bara einhver lögmannsstofa. Ó, nei. Í eigendahópi stofunnar eru til dæmis þrír frambjóðendur og jafnvel trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Lárus Blöndal, Vífill Harðarson og Sigurbjörn Magnússon.
Jæja, já. Það er bara svona. Kemur kannski ekkert á óvart, eða hvað? Nú er tekið undir með Jóhannesi Karli þar sem hann segir: „Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt.“
Sigurjón M. Egilsson.