Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:
Hér má sjá breytingar á meðaleign almennings eftir eignahópum, m.v. eignaskattsstofn, ekki tíundum heldur í hundrað þrepum frá 1% neðsta hópnum sem á ekkert að 1% eignamesta fólkinu, frá 1992 til 2016. Þetta má sækja í sama gagnagrunn og tekjusagan.is byggir á, vefurinn sem Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson opnuðu um daginn. Inn á tekjusögunni er aðeins tekjur, ekki eignir. Af orðum Katrínar og Bjarna mátti ætla að allt hafi stefnt að auknum jöfnuði á Íslandi á undanförnum árum, en það á sannarlega ekki við um eignir.
1/3 hluti fólks á lítið sem ekkert og þeirra staða hefur ekki breyst, hvorki skánað né versnað frá 1992. Staða næsta þriðjungs hefur hins vegar versnað; það fólk átti minna árið 2016 en 1992 miðað við fast verðlag. Þetta á við um fólk frá 38. tekjuþrepi að 66. þrepi, fólk sem átti á bilinu hundrað þúsund kall í hreina eign á núvirði 1992 og upp í 9,5 m.kr. Staða þess hóps versnaði.
Hrein eign efsta þriðjungsins jókst hins vegar á tímabilinu, sem kalla má tíma nýfrjálshyggjunnar (frá 1992 til 2016). Og það er áhugavert að skoða hvernig sá ávinningur skiptist. Hér er sýnd hlutfallsleg aukning hreinnar eignar m.v. eignaskattsstofn, en línuritið lítur öðru vísi út ef við setjum inn upphæðir. Ég sýni ykkur það í sérstökum status seinna.
En þetta línurit er svar við spurningunni: Hvers vegna sleppti Katrín og Bjarni að sýna eignir í tekjusögunni sinni úr því hægt var að nálgast þær úr sama talnagrunni?
Það er fráleitt að ráðuneyti undir pólitískri forystu séu að birta hagstofugögn í pólitískum tilgangi. Upplýsingagjöf um hagkerfið, vinnumarkað og skattkerfi á að vera á könnu Þjóðhagsstofnunar (sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði niður þegar stofnunin vildi ekki spila með pólitíkinni) eða Hagstofunnar, sem er stofnun í fjársvelti. Í stað þess að ráðherrar fái pening til að sveigja upplýsingagjöf að eigin delluhugmyndum í pólitík á að nota féð til að tryggja almenningi betri upplýsingar og skýrari mynd af samfélaginu sem við lifum í og skaðlegum áhrifum af þeirri andmannúðarstefnu sem stjórnvöld hafa rekið á undanförnum áratugum, stefnu sem kemur öllum illa nema hinum best settu.