- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn kann ekki að skammast sín

VILJA EYÐILEGGJA FÉLAGSBÚSTAÐI EINS OG ÞEIR RÚSTUÐU VERKAMANNABÚSTÖÐUM.

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Gunnar Smári.

Eitt af fyrstu verkum Margraet Thacher eftirað hún tók við sem forsætisráðherra Bretlands var að brjóta niður það samfélag sem byggt hafði verið upp á eftirstríðsárunum, að miklu til út frá kröfum verkalýðshreyfingarinnar um aukinn jöfnuð og félagsleg lausnir í mennta-, heilbrigðis- og húsnæðismálum; var að setja lög til að auðvelda leigjendum hjá sveitarfélögunum að kaupa íbúðir úr úr kerfinu. Þessi aðgerð var kölluð Right to Buy og nýfrjálshyggjufólkið kynnti hana sem aðgerð til að færa auð frá hinu opinbera til einkaaðila, en kenning þeirra var sú að hið opinbera færi ætíð illa með auð, auðlindir, rekstur og ábyrgð en einkaaðilar ætíð vel. Markmið nýfrjálshyggjunnar var ekki aðeins að færa eignir, auðlindir og fjármuni frá þeim sviðum samfélagsins sem hið opinbera hafði byggt upp og sinnt; heldur að flytja þaðan einnig stefnumörkun, eftirlit og aðra samfélagsmótun, flytja nánast allt vald frá hinum lýðræðislega vettvangi út á hinn svokallaða markað; að brjóta niður vald almennings en auka við vald auðvaldsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar Thatcher komst til valda 1979, og gagnbylting auðvaldsins gegn samfélagi eftirstríðsáranna hófst af alvöru, hin svokallaða nýfrjálshyggja; voru um 6,5 milljón leiguíbúða á vegum sveitarfélaga í Bretlandi. Af þessum íbúðum voru um 1,5 milljón seldar í gegnum Right to Buy átakið, sem stendur enn í Englandi, en yfirvöld í Skotlandi og Wales hafa skrúfað fyrir það enda hefur það valdið miklum félagslegum skaða og magnað upp húsnæðiskeppu meðal fólks með lágar tekjur og lægri millitekjur, fólks sem kerfið leiguíbúða á vegum sveitarfélaga hafði tryggt visst húsnæðisöryggi fyrir tíma nýfrjálshyggjunnar. Samhliða Right to Buy var leigukerfi sveitarfélaganna brotið niður með öðrum hætti, svo staðan er nú sú að í heild hafa um 4,5 milljón íbúðir horfið út úr kerfinu Í dag eru aðeins um 2 milljón íbúða eftir. Ef félagslega leigukerfið hefði haldið í við fólksfjölgun hefði ein milljón íbúða þurft að bætast við kerfið. Það má því segja að aðgerðir Thatcher og annarra nýfrjálshyggjumanna sem fylgdu á eftir, og þá ekki síst þeirra Blair og Brown, hafi fækkað félagslegum leiguíbúðum um 5,5 milljón í Bretlandi.

Sjálfstæðisflokksmenn brutu niður Verkamannabústaðakerfið á Íslandi stuttu fyrir síðustu aldamót, kerfi sem var burðarás félagslega íbúðakerfisins á Íslandi.

Þessi aðgerð braut ekki bara niður félagslegt öryggi í húsnæðismálum heldur varð kveikjan af yfirgengilegu braski og tryggði yfirráðum leigufyrirtækja yfir húsnæðismarkaðnum. Innan gamla kerfisins höfðu leigjendur töluvert að segja til um hvernig haldið var utan um leiguíbúðirnar á vegum sveitarfélaganna, en í nýja kerfinu verða þeir að kljást við andlitslaus gróðafyrirtæki eins og kom vel fram þegar Grenfell-turninn brann í London. Rannsóknir hafa sýnt að rúmlega 1/3 af þeim íbúðum sem seldar voru út úr kerfinu í gegnum Right to Buy enduðu hjá stórum leigufyrirtækjum sem síðan hafa leigt sveitarfélögunum þær aftur svo þau geti sinnt skyldu sinni og tryggt íbúum húsnæði (skylda sem íslensk sveitarfélög láta sem þau beri ekki).

Fyrir nýfrjálshyggjutímann bjuggu um 55 prósent Breta í eigin húsnæði. Félagslega íbúðarkerfið var því álíka stórt og í öðrum löndum sem verkalýðshreyfingin og stjórnmálaflokkar á vegum hennar höfðu mótað, þetta er viðlíka hlutfall og var í Svíþjóð, svo dæmi sé tekið. Þetta leigukerfi var því ekki neyðarúrræði fyrir allra fátækasta fólkið, eins og Félagsbústaðir Reykjavíkur, sem Sjálfstæðisflokksfólk vill nú einkavæða. Þær fjölskyldur sem keyptu íbúðir út úr kerfinu voru ekki öryrkjar og láglaunafólk sem gat sannað að það hafði vart í sig og á, eins og fólk í Reykjavík þarf að gera til að fá úthlutað íbúð frá Félagsbústöðum (eftir um tíu ára á biðlista og út á grimmum leigumarkaði HræGammanna). Þær fjölskyldur sem keyptu íbúðir út úr kerfinu voru fyrst og fremst millistéttarfólk með sæmilegar tekjur. Eða fólk sem hafði gert samning við kapítalista, sem í reynd voru kaupendur þótt leigjendur væru það á pappírnum og þar til að raunverulegir kaupendur tóku íbúðirnar yfir. Og það væri í raun eini möguleikinn til að þau sem leigja af Félagsbústöðum geti keypt húsnæði út úr kerfinu, að Gamma eða aðrir dólgakapítalistar kaupi íbúðir í reynd en í gegnum leigjendurna; fjármagni kaupin til að geta grætt á þeim. Líklega er þetta plan Sjálfstæðisflokksins, að endurtaka gagnbyltingu Thatcher og nýfrjálshyggjunnar gegn félagslegu öryggi eftirstríðsáranna.

Hlutfall fjölskyldna í eigin húsnæði er nú 63% í Englandi.

Hæst fór hlutfall fjölskyldna sem bjó í eigin húsnæði upp í 71% stuttu eftir aldamót. Þetta hlutfall hefur lækkað aftur síðan þá, enda sannaði Hrunin meðal annars að fólk með lágar tekjur stendur ekki undir skuldsettum húsnæðiskaupum á markaði fyrir húsnæði og lánsfé, markaði sem mótaður er af spákaupmönnum og bröskurum. Hlutfall fjölskyldna í eigin húsnæði er nú 63% í Englandi. Þar eins og annars staðar er verkefni stjórnvalda að endurbyggja upp félagslegt íbúðakerfið sem nýfrjálshyggjan eyðilagði. Í stefnuskrá Verkamannaflokks Corbyn fyrir kosningarnar 2017 var lagt til að byggðar yrðu fimm milljónir íbúða til að mæta húsnæðiskreppunni, sem grefur undan lífskjörum fólks með lágar tekjur og lægri meðaltekjur. Eins og margt í þeirri stefnuskrá er þetta neyðaraðgerð til að mæta allra mesta skaðanum af nýfrjálshyggjunni; það er fyrsta verkefnið. Þegar búið er að vinda ofan af mestu vitleysunni getum við síðan sest niður og spurt þeirrar spurningar sem við hefðum átt að svara á áttunda áratugnum, þegar stjórnmálakerfi eftirstríðsáranna var komið í þrot: Jæja, hvers konar samfélag viljum við byggja upp?

Sjálfstæðisflokksmenn brutu niður Verkamannabústaðakerfið á Íslandi stuttu fyrir síðustu aldamót, kerfi sem var burðarás félagslega íbúðakerfisins á Íslandi. Það var lokað eignaríbúðakerfi, fólk gat keypt ódýrar íbúðir með lágri útborgun og lágum vöxtum á eftirstöðvar og búið þar með við bærilegan húsnæðiskostnaði gegn því að selja aftur inn í kerfið á sama lága verðinu. Þannig var kerfinu haldið við, ein kynslóð tók við af annarri. Markmiðið var lækkun húsnæðiskostnaðar lágtekjufólks. Aðferð Sjálfstæðisflokksins og samverkaflokks hans í ódæðinu, Framsóknar, var að búa til einskonar Right to Sell-aðgerð. Fólk sem hafði keypt íbúðir í kerfinu mátti skyndilega selja þær á opnum markaði þar sem það fékk 5-10 milljónum króna meira fyrir íbúðirnar en ef þær væru seldar aftur inn í hið lokaða kerfi. Á örfáum misserum gufaði kerfið upp. Verkamannabústaðakerfið, sem hafði verið veikbyggður stuðpúði lágtekjufólks gegn sveiflum á húsnæðismarkaði, hvarf. Afleiðingar þess hafa komið í ljós í húsnæðiskreppunni eftir Hrun þegar okurleiga stórra leigufyrirtæki dólgakapítalista hefur grafið undan lífskjörum láglaunafólks, öryrkja, eftirlaunafólks, námsfólks og annarra hópa með litlar tekjur.

Tillaga Sjálfstæðisflokksmanna í Reykjavík um að endurvekja gamlan draug Margrétar Thatcher og siga honum á hina veiku Félagsbústaði er svo galin að það er ekki hægt að taka hana alvarlega. Hún afhjúpar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur kosið að láta se

Ef Right to Buy var geggjuð nýfrjálshyggjuaðgerð þá var Right to Sell algjörlega sturlað prógramm. Í Right to Buy var lagt upp með að íbúarnir, sem höfðu fengið íbúðunum úthlutað myndu búa þar áfram. Kenningin var að þeim liði svo miklu betur í sínu eigin húsnæði og að þau færu svo miklu betur með íbúðirnar en hinir sameiginlegu sjóðir almennings höfðu gert. Að baki aðgerðinni lá bernsk trúarsannfæring hinnar nýju þjóðtrúar Breta, nýfrjálshyggjunnar. Margraet Thatcher og hennar lið þurfti að klæða aðgerðina inn í slíkar umbúðir til að fá hana samþykkta þótt eðli aðgerðarinnar væri í reynd allt annað; að auka völd auðvaldsins og draga úr völdum almennings. Á Íslandi var aðgerðin Right to Sell ekki klædd í neinn svona búning, aðgerðin snerist um að íbúar gátu selt íbúðirnar út úr kerfinu og stungið hagnaðinum í vasann. Niðurlagning Verkamannabústaðakerfisins var því braskvæðing fyrst og fremst, kannski vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er fyrst og síðast flokkur braskara og spákaupmanna og telur engar hugsjónir æðri en þrá braskarans eftir skjótfengnum gróða.

Tillaga Sjálfstæðisflokksmanna í Reykjavík um að endurvekja gamlan draug Margrétar Thatcher og siga honum á hina veiku Félagsbústaði er svo galin að það er ekki hægt að taka hana alvarlega. Hún afhjúpar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur kosið að láta sem hrun nýfrjálshyggjunnar hafi ekki átt sér stað og að þruglið upp úr Margraet Thatcher sé enn boðlegt í almennri samfélagsumræðu. Flokkurinn sem eyðilagði Verkamannabústaði og jók þar með við sársauka fólksins sem þjáist nú undan húsnæðiskreppunni í Reykjavík kemur fram og leggur það til sem lausn að eyðileggja Félagsbústaði ofan á eyðileggingu Verkamannabústaðakerfisins. Þetta lið kann ekki að skammast sín.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: