„Sjálfstæðisflokkurinn fékk tæp tuttugu og fjögur prósent 2009, sem er minnsta fylgið í sögu flokksins,“ sagði Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri í samtali á Sprengisandi á sunnudag var. Grétar Þór vinnur úr skoðanakönnunum og heldur þannig vel um hvernig fylgi einstakra flokka og framboða þróast.
Sem dæmi má nefna að í kosningunum 1999 fékk Sjálfstæðisflokkurinn tæplega 41 prósent atkvæða á landinu.
Á grafinu, sem Grétar vann sést hver fylgisþróunin er frá kosningum. Einsog sjá má er fylgið við Sjálfstæðisflokkinn langtum minna en flokkurinn á að venjast, en í kosningunum 2009 kusu færri Sjálfstæðisflokkinn en dæmi voru um. Hann bætti aðeins við sig í kosningunum í fyrra en nálgast nú minnsta fylgið sitt, það er það sem hann fékk í kosningunum 2009.
„Hann hefur ekki náð að rífa fylgið upp,“ sagði Grétar Þór og benti á að sinni samantekt hefði Sjálfstæðisflokkurinn tvisvar náð 28 prósenta fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði 1987 þegar Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn, en eigi síður fékk Sjálfstæðisflokkurinn rúm 27 prósent þá. „Hann virðsit vera staddur þar í dag,“ sagði Grétar Þór.
Grétar Þór sagði erfitt að gefa út eina skýringu á hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú talsvert minna fylgi en hann hefur haft lengst af. „Hann tapaði miklu eftir hrunið árið 2008 og það sást í kosningunum 2009 og hann hefur ekki náð sér á strik síðan,“ og bætti við að eðilegast sé að leita skýringa í efnahagshruninu.
Næst skoðum við Framsóknarflokkinn.