Sjálfstæðisflokkurinn fékk „gefna“ níu bæjarfulltrúa í kosningunum
Reiknireglurnar hagstæðar Sjálfstæðisflokki. Sósíalistar áttu fyrir öðrum manni.
Marinó G. Njálsson hefur tekið saman mjög fortvitnilegan reikning um úthlutun fulltrúa í bæjarstjórnum hér og þar.
„Við skoðun á úrslitum kosninganna og úthlutun fulltrúa, þá kemur í ljós, að í 15 sveitarfélögum (af þeim 36 sem ég skoðaði) þá færir d’Hondt reiknireglan, sem notuð er við úthlutun aðalmanna í sveitarstjórnum, flokkum aðra fulltrúatölu en hlutfall atkvæða flokkanna segir til um. Í einhverjum tilfella leiðir þetta til þess að flokkur fær meirihluta i´sveitarstjórn án þess að vera meirahluta atkvæða. Í öðrum tilfellum fá stórir flokkar fleiri fulltrúa, en þeir ættu að fá, réði beint hlutfall atkvæða.
Það sem ég gerði einfaldlega var að margfalda fjölda aðalmanna með hundraðstölu fylgis hvers flokks fyrir sig. Dæmi: Fengi flokkur 30% fylgi í sveitarfélagi með 7 fulltrúa, þá fengist 2,1 fulltrúi. Þegar svona er gert, þá enda flokkar á að fá 1,51 fulltrúa, 2,05 fulltrúa, 0,96 fulltrúa eða 5,78 fulltrúa svo dæmi séu tekin. Því þarf að raða brotunum eftir stærð, þegar búið er að úthluta fyrir heilutölurnar.
Hér er dæmi um sæti eftir að fylgi í kosningum var margfaldað með 9 sem var fulltrúafjöldi sveitarfélags. Þetta er raunverulegt dæmi en röð breytt og flokkabókstafir eru tilbúningur:
A – 3,44 sæti – 3 úthlutað beint, ekkert vegna brotsins
B – 0,76 sæti – 0 úthlutað beint, 1 vegna brotsins
C – 1,39 sæti – 1 úthlutað beint, ekkert vegna brotsins
D – 0,97 sæti – 0 úthlutað beint, 1 vegna brotsins
E – 1,81 sæti – 1 úthlutað beint, 1 vegna brotsins
F – 0,63 sæti – 0 úthlutað beint, 1 vegna brotsins
Þarna tryggðu 3 flokkar sér í allt 5 sæti vegna þess að fylgi þeirra sinnum fjöldi fulltrúa var hærri en heiltala. Síðan raðast fjögur sæti á lista eftir stærð brotanna: 0,97; 0,81; 0,76 og 0,63.
Í raun og veru úthlutaði d’Hondt flokki A fjórum fulltrúum, en flokki F engum. Fulltrúafjöldi annarra flokka var óbreyttur.
d’Hondt reglan gaf sem sagt flokkum sæti í 15 sveitarfélögum umfram það þeir höfðu hlutfallslegt fylgi til. Þetta gerðist í eftirfarandi sveitarfélögum:
Árborg: D-listi fékk sæti á kostnað V-lista
Borgarbyggð: B-listi fékk sæti á kostnað D-lista
Fjarðarbyggð: L-listi fékk sæti á kostnað M-lista
Fljótsdalshérað: D-listi fékk sæti á kostnað M-lista
Garðabær: D-listi fékk sæti á kostnað M-lista
Grímsnes- og Grafningshreppur: E-listi fékk sæti á kostnað G-lista
Grindavík: D-listi fékk sæti á kostnað G-lista
Hafnarfjörður: D-listi fékk 2 sæti á kostnað P- og V-lista
Kópavogur: C- og D-listar fengu sæti á kostnað M- og V-lista
Mosfellsbær: D-listi fékk sæti á kostnað Í-lista
Reykjanesbær: S-listi fékk sæti á kostnað P-lista
Reykjavík: D- og S-listar fengu sæti á kostnað B- og J-lista
Seltjarnarnes: D-listi fékk sæti á kostnað F-lista
Stykkishólmur: H-listi fékk sæti á kostnað L-lista
Vestmannaeyjar: H-listi fékk sæti á kostnað E-lista
Í einu tilfelli hefðu flokkar með yfir 49,65% fylgi misst meirihluta sinn, þ.e. í Kópavogi, en flokkar með 42,87% fylgi hefðu fengið meirihluta. En það er ekki jafn vitlaust og að flokkar með innan við 50% fylgi fái 7 af 11 bæjarfulltrúum eða 63,6% bæjarfulltrúa, eins og d’Hondt-reglan komast að niðurstöðu um í bænum!
Það er mín skoðun, að d’Hondt reglan hafi runnið sitt skeið á enda. Hún var tekin upp, þegar 4-6 flokkar buðu að jafnaði fram til Alþingis. Jafnvel þá, var hún ekki betri en svo, að sauma þurfti við hana jöfnunarþingsætum til að leiðrétta skekkjurnar sem reglan skapar. Í sveitarstjórnarkosningu eru engin jöfnunarsæti og því er rangt að beita reglunni. En eins og sést á upptalningu minni að ofan, þá er ein ástæða fyrir notkun reglunnar og hún er D-listinn. Samkvæmt mínum útreikningum hagnaðist D-listinn um 9 sæti vegna d’Hondt reglunnar, þar af fékk flokkurinn tvö sæti umfram fylgi í Hafnarfirði. Á móti misstu M, P og V af 9 fulltrúum.“