Sjálfstæðisflokkurinn er hlýðinn þræll hinna ríku
Gunnar Smári skrifar:
Þrátt fyrir að þessi könnun sé gölluð, þar sem þungunarrof hefur verið leyft svona lengi áður (ákvörðun þurfti samþykki nefndar á vegum stjórnvalda), jafnvel villandi; þá sýnir hún að ný lög um þungunarrof njóta góðs stuðnings út í samfélaginu. Öfugt við flest það sem stjórnvöld og alþingi troða upp á þjóðina. Og í takt við það er ekki að undra að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði, þeim flokki er ómögulegt að ganga í takt við meirihluta almennings; er í eðli sínu flokkur minnihlutaskoðana þótt aðrir flokkar hafi gert hann að þungamiðju íslenskra stjórnmála með því beygja sig fyrir vilja hins auðuga minnihluta. Og þar með að breyta samfélagi okkar í auðræði, þjófræði (ríki stjórnað af þeim sem ræna almenning eignum sínum og auðlindum). Út frá lýðræðislegum forsendum má því fagna hinu nýja frumvarpi. Það nýtur án nokkurs vafa enn meiri stuðnings en hér er sýndur, framsetning spurningarinnar er sniðin að málflutningi andstæðinga frumvarpsins. Andstaðan er bundinn við flokka minnihlutaskoðana, við fólk sem komið er úr barneign og hluta þess kyns sem ekki getur gengið með börn.
Einu sinni var bent á að kalla mætti stefnu Sjálfstæðisflokksins sjónarmið sjötugra. Hann á það sammerkt með breska Íhaldsflokknum sem var fjöldahreyfing þriggja milljóna manna um miðja síðustu öld en er í dag aðeins með um 125 þúsund félagsmenn, flest mjög aldrað fólk. Íhaldsflokknum er eins og Sjálfstæðisflokknum stjórnað af fámennri klíku forystufólks og mótar stefnu sínu ekki að vilja eða væntingum flokksmanna heldur að hagsmunum hinna ofsaríku. Nema þegar kemur að málum sem snerta persónuleg málefni eins og þungunarrof og málefni sem kalla á mannúð og mannvirðingu gagnvart þeim sem hafa orðið undir óréttlæti samfélagsins. Þá sækja breskir íhaldsmenn í viðhorf hins aldraða flokksfólks. Eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn er því hlýðinn þræll hinna ríku í öllum málum sem snerta hagsmuni þeirra en sál hans er gömul og grimm; eins og fólk getur orðið þegar það eldist og orkan og aflið minnkar og það verður dómhart og miskunnarlaust gagnvart þeim sem yngri eru; skilja ekki hvað þau segja og hlusta ekki einu sinni; og eru fyrir löngu búin að geyma hvað það er að vera ungur og með ábyrgð á öðrum en sjálfum sér; hafa fórnað samkennd og samhygð fyrir vald dómarans yfir öðru fólki. Þannig er sál þessara flokka hinna auðugu.
(Ég þarf vonandi ekki að taka fram að þessi lýsing á grimmri sál Íhaldsflokksins og Sjálfstæðisflokksins á ekki við um alla sem komin eru á eftirlaunaaldur. Aðeins um helmingur fólks yfir 65 ára sagðist andvígt hinni illa orðuðu spurningu, mest karlarnir. Aldurinn fer körlum verr en konum.)