„Auðvitað er Sjálfstæðisflokkurinn ekki krabbamein í þjóðlífinu eða bandalag barnaníðinga. Þetta er bara fólkið í næsta húsi, frændur og frænkur – vissulega svolítið margir forstjórar og kvótagreifar en þó fyrst og fremst fólk sem hefur sterka sannfæringu fyrir því að málum sé allajafnan betur komið í höndum einstaklinga og félagasamtaka en ríkisins, sem þetta fólk lítur á sem eitthvað annað en samstarf um samfélagsleg úrlausnarefni sem fjármagna þurfi með sköttum. Fólk sem trúir því að hver sé sinnar gæfu smiður – ekki með spurningamerki, eins og Kata frænka orðaði það. Sem sé: Sjálfstæðisflokkurinn er ekki illvirkjasveit. Slíkt orðræða missir marks þegar horfinn er fyrsti stundar-unaðurinn af því að ausa fúkyrðum yfir fólk.“
Það var Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem skrifaði þetta á Facebook í morgun.
„En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki heldur hinn eðlilegi vettvangur valda og samskipta í samfélaginu, og trúnaðarstörf fyrir flokkinn eru ekki endilega góður undirbúningur að valdastöðum á samfélagsvísu,“ skrifaði Guðmundur Andri og hélt áfram: „Því er manneskja sem hefur aðstoðað formann flokksins árum saman, meðal annars við framkomu í fjölmiðlum, ekki heppileg til þess að gegna starfi á borð við útvarpsstjóra – það segir eiginlega sjálft. Þar með er ekki sagt að viðkomandi sé ekki góður og frambærilegur starfskraftur – hún hefur sýnt að það er hún svo sannarlega – en manneskja sem sinnt slíkri trúnaðarstöðu fyrir slíkan valdamann er einfaldlega ekki trúverðugur fulltrúi stofnunar sem okkur er öllum mikið í mun að sé sjálfstæð og sterk og ekki í þjónustuhlutverki við ríkisstjórnir hverju sinni.
Þetta uppátæki Svanhildar Hólm – að sækja um stöðu útvarpsstjóra – sýnir okkur hið furðulega samband Sjálfstæðismanna við Ríkisútvarpið. Annars vegar standa þeim í linnulausum árásum á stofnunina, með hótunum og hlutdrægnibrigslum gagnvart hverjum þeim sem ekki hefur svarið trúnaðareiða í Valhöll – láta eins og það sé sérstakt keppikefli allra sem þarna starfa að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn – og hins vegar telja þeir sig geta gengið þarna inn og út að vild og tekið sér þær stöður sem þá fýsir hverju sinni …“