Sjálfstæðisflokkurinn er ekki ábyrgur flokkur
Gunnar Smári skrifar:
Bjarni Benediktsson stærði sig af því á fundi í Valhöll að Sjálfstæðisflokkurinn legði ekki fram kosningaloforð eins og aðrir flokkar og vildi meina að ástæðan væri sú að aðrir flokkar lofuðu upp í ermina á sér en xD væri ábyrgari flokkur. Sú er auðvitað ekki raunin. Ástæðan er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað íslenskt samfélag í eigin mynd og er bara sáttur við það. Aðrir flokkar vilja breyta samfélaginu og leggja fram tillögur að þeim breytingum; því fleiri sem þeir vilja meiri breytingar. Sjálfstæðisflokkurinn er eins og karlinn í feðraveldinu, bara ánægður með stöðu mála innan fjölskyldunnar. Aðrir flokkar eru hinir fjölskyldumeðlimirnir, sumir eru meðvirki makinn, aðrir elsta barnið sem vill ganga í augun á föðurnum, en svo eru flokkar sem hafa áttað sig á að það þurfi að kollvarpa veldi pabbans ef allir eigi að geta lifað góðu og innihaldsríku lífi, aðrir í fjölskyldunni séu ekki fæddir til að þjóna honum.