- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn á langt í land

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar á vefsíðu sína grein um Sjálfstæðisflokkinn. Hann leyfir sér að vera gagnrýnin á flokkinn.

„Stjórnmálaflokkur sem ekki hefur burði til að sameina í hugmyndafræði sinni ólíka hagsmuni, – smíða brú milli launafólks og atvinnurekenda, milli ungs fólk og þeirra sem eldri eru, milli landsbyggðar og höfuðborgar, – verður lítið annað en bandalag sérhagsmuna eða fámennur en oft hávær hópur sem er líkari sértrúarsöfnuði en stjórnmálaflokki. Stjórnmálaflokkur sem er þess ekki umkominn að mynda farveg fyrir samkeppni hugmynda og skoðana, mun hægt en örugglega veslast upp, missa þróttinn og deyja. Slíkur flokkur á ekki erindi við framtíðina,“ segir meðal annars í grein þingmannsins,

Hann lítur til baka, til þess tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn var til muna stærri en hann er nú:

„Þegar Sjálfstæðismenn halda upp á 90 ára afmælið í maí komast þeir vart hjá því að svara spurningum um framtíð flokksins. Á landsvísu á flokkurinn töluvert í land að endurheimta fyrri styrk. Margir leita skýringa til hruns fjármálakerfisins og eftirleik þess. Ekki skal gert lítið úr því en þróunin hófst miklu fyrr. Höfuðvígi flokksins – Reykjavík – féll löngu áður. Þótt tekist hafi að spyrna nokkuð við fótum í síðustu borgarstjórnarkosningum er fylgið langt undir sögulegu meðaltali. Staða meðal ungs fólk – ekki síst í Reykjavík – hefur aldrei verið veikari. Það er af það sem áður var þegar ungir kjósendur löðuðust að Sjálfstæðisflokknum, kannski ekki síst vegna þess hve mikil áhrif ungt fólk hafði á störf og stefnu flokksins – allt frá hugmyndum um valddreifingu, opna stjórnsýslu og upplýsingafrelsi, til raunverulegs valfrelsis til menntunar, búsetu og starfa.“

Svo vitnar hann í fimmtán ára gamla ræðu Davíðs Oddssonar:

„Við trúum á þau grundvallaratriði sem í frjálshyggjunni búa. Við trúum á þau vegna þess að við vitum að fólkið sjálft á markaðnum, með undraskjótum og einföldum hætti, finnur lausnir á vandamálum sem fjögur þúsund stjórnskipaðar nefndir myndu ekki finna heldur flækja. Við trúum á lausnir markaðarins en þær leysa ekki allan vanda. Leikreglurnar verða að vera skýrar, ljósar og klárar og sanngjarnar og það verða allir að lúta þeim. Líka þeir sterku. Sjálfstæðisflokkurinn vill sjá um það.“

Víst er að sitt mun hverjum sýnast um hvernig Sjálfstæðisflokknum gekk að sjá um það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: