Sjálfstæðisflokkur vildi fátt, en fékk ekki neitt
- Þorsteinn Pálsson segir mestu hættuna vera að Sjálfstæðisflokkur nái saman með VG og Framsókn.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og nú félagi í Viðreisn, skrifar um stjórnarsamstarfið á Kjarnann.
Hann segir að við myndun ríkisstjórnarinnar hafi Sjálfstæðisflokkurinn aðeins farið fram á skattalækkanir en óbreytt ástand að öðru leyti.
„Niðurstaðan var sú að engar skattalækkanir voru samþykktar,“ skrifar Þorsteinn
Aðeins orðin tóm
Formaðurinn fyrrverandi sendir sínum gamla flokki tóninn: „Það sem helst sker í augu í þessu stjórnarsamstarfi eru kröftugar og ítrekaðar yfirlýsingar þingmanna og jafnvel ráðherra Sjálfstæðisflokksins um andstöðu við einstök atriði í stjórnarsáttmálanum og við ákvarðanir sem teknar hafa verið við ríkisstjórnarborðið. Þetta er veikleiki samstarfsins. Satt best að segja er fremur óvanalegt að sjá brotalamir af þessu tagi í forystuflokki í ríkisstjórnar.“
Þorsteinn er á því að andstaðan innan Sjálfstæðisflokksins hafi ekki haft mikil áhirf. „Enn sem komið er hefur þetta ástand þó ekki leitt til þess að framgangur mála hafi stöðvast. Orðin hafa að því leyti verið tóm. En það getur vitaskuld breyst. Og ekkert er eðlilegra en minnihlutaflokkarnir bindi vonir við það.“
Varnir gegn stöðnun
Þorsteinn fjallar einnig um hugsnlegar breytingar á landsstjórninni. „Að svo komnu hafa Viðreisn og Björt framtíð því átt erindi í þetta stjórnarsamstarf. Mesta hættan fyrir þessa tvo flokka í framhaldinu er sú að í því breiða samtali sem lagt hefur verið upp með á nokkrum sviðum nái Sjálfstæðisflokkurinn saman með þeim tveimur flokkum í minnihlutanum sem mest eru á móti breytingum. Á næstu mánuðum eða misserum komast þeir flokkar tæpast hjá því að svara hvert hugur þeirra stefnir í þeim efnum.“