- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkur veðjar á rokrassgat

Hildur Björnsdóttir. „…bíllausa byggð, mannvæna byggð í sátt við útgerð og fiskvinnslu.“

Víst er að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa ekki reynslu af rokinu á Grandanum. Þau vita kannski heldur hvernig sjór, fjörugrót, fjörugróður og annað sem finnst í fjörum hefur ruðst á land við Ánanaust þegar hvessir af norðan eða norðaustan. Búið er að reisa heljarinnar garða til bjargar götu og öðrum mannvirkjum.

Sjálfstæðismenn segjast vilja búa til nýtt byggingaland með landfyllingum þar sem stormurinn verður hvað mestur og erfiðastur. Þau vilja búa til mesta rokrassgat landsins.

Hildur Björnsdóttir, sem skipar annað sæti listans, skrifar fádæma grein í Fréttablaðinu í dag. „Ljúfsár lykt af sjávarfangi vekur minningar. Dægradvöl við dorgveiði á sólríkum degi. Skip koma að höfn til hvíldar. Börn bralla við bryggju í brælu. Lifandi tengsl fólks við haf og höfn. Æskuminningar úr sjávarplássinu Hafnarfirði. Búsetukostir og hafnarstarfsemi fóru laglega saman,“ skrifar hún og opinberar vanþekkingu sína. Þetta er ekki svona á Grandanum. Var en er ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Minni bátar, svo ekki sé talað um smábáta, eru fáir við Grandagarð. Þar eru togarar, stóri nótabátar og aðrir bátar sem eru ekkert heillandi. Skip sem minna helst á stálþil. Óspennandi með öllu.

Hildur skrifar áfram: „Gamla höfnin í Reykjavík hefur tekið breytingum,“ sem er hárrétt hjá henni.

Hluti minnar æsku var Grandinn og Grandagarður mitt leiksvæði. Stórhættulegt og það allt saman. Þá voru þar margir bátar, stórir og smáir og andinn allt annar en nú. Nú koma þangað stór og þung skip sem fólk ekkert erindi nærri og þeim fylgir ekki rómantík.

Oft var eina skjólið landmegin við verbúðirnar. Nú segist Sjálsætðisflokkurinn vilja gera landfyllingu út í hafið og hafa þar; „…bíllausa byggð, mannvæna byggð í sátt við útgerð og fiskvinnslu. Vistvæna og græna byggð sem ekki þrengir að hafnsækinni starfsemi.“

Ef af verður, sem sjálfsagt verður ekki, verður „gaman“ að fylgjast með fólki berjast gegn storminum í hinni bíllausu byggð.

Eitt próf fyrir Sjálfstæðismenn. Vitið þið hvers vegna hafnargarðarnir voru gerðir? Vitið þið hvers vegna höfnina er ekki sjávarmegin á Grandanum? Allir aðrir vita þetta.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: