Sjálfstæðisflokkurinn undirbýr mesta niðurskurð í manna minnum
Stjórnmál / Hugmyndir Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um niðurskurð í opinberum rekstri falla flokksmönnum hennar vel í geð. Henni er fagnað. Styrmir Gunnarsson, sem hefur stundum verið á skjön við forystu flokksins, fagnar nú.
Styrmir skrifar um, í vikulegri Moggagrein sinni, þæri blikur sem eru á lofti í efnahagsmálunum. Og segir:
„Í þessu ljósi blasir við að gera þarf stórátak í að draga úr kostnaði við rekstur þjóðarbús okkar en í slíkt átak hefur ekki verið ráðist í manna minnum.“ Gott og vel. En er víst að Sjálfstæðisflokkurinn sé heppilegastur allra til að leiða þá vinnu sem þá er framundan? Styrmir er viss og vísar til þess sem Þórdís Kolbrún hefur sagt:
„Annað nauðsynlegt verkefni er að hagræða í ríkisrekstrinum. Við þurfum að kasta þeirri ranghugmynd að hagræðing feli alltaf í sér niðurskurð á þjónustu. Því getur einmitt verið öfugt farið. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að reka stóru kerfin okkar með óbreyttum hætti.“
„Allt er þetta rétt hjá Þórdísi Kolbrúnu og þessi orð hennar vekja vonir um að nú verði hafizt handa um hagræðingu í opinberum rekstri, sem snúist ekki um niðurskurð á bráðnauðsynlegri þjónustu, heldur niðurskurð á óþarfa kostnaði,“ skrifar fagnandi Styrmir. Og bætir við: „Það sem á við um ríkið í þessu samhengi á líka við um sveitarfélögin, eins og á var bent hér á þessum vettvangi fyrir viku, þar sem m.a. var fjallað um þá hagræðingu, sem fælist í sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“